Erlent

Reyna að stoppa Boris Johnson fyrir dómi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Johnson vill út hvað sem tautar og raular.
Johnson vill út hvað sem tautar og raular. Nordicphotos/AFP

Skoskur dómstóll mun í næsta mánuði taka fyrir mál sem um sjötíu stjórnarandstöðuþingmenn hafa höfðað í von um að dómstóllinn úrskurði að Boris Johnson forsætisráðherra megi ekki slíta þingi til þess að ganga út úr Evrópusambandinu án samnings. Þetta var niðurstaða dómstólsins í gær.

Andstæðingar Johnsons og slíkrar útgöngu óttast að Johnson gæti beitt þessu mögulega vopni á dögunum fyrir settan útgöngudag, 31. október, til þess að knýja fram samningslausa útgöngu í trássi við yfirlýstan vilja meirihluta þingmanna. Johnson hefur ekki lýst sérstaklega yfir áhuga sínum á þeirri útkomu.

Þrír þættir gera atburðarásina hins vegar nokkuð líklega. Í fyrsta lagi er Johnson staðráðinn í því að halda í settan útgöngudag og ekki fresta honum líkt og áður hefur verið gert vegna samningsleysis. Í öðru lagi er nokkuð ólíklegt að samningur muni liggja fyrir í októberlok. Breska þingið hefur í þrígang hafnað samningi ríkisstjórnar Theresu May og Evrópusambandstoppar segja ómögulegt að semja upp á nýtt. Í þriðja lagi er þingið andsnúið samningslausri útgöngu og því yrði erfitt fyrir Johnson að ná þess háttar útgöngu þar í gegn.

Skoðanakönnun sem ComRes gerði og The Telegraph birti í gær sýndi að 44 prósent aðspurðra myndu styðja forsætisráðherrann til þess að klára útgöngumálið hvað sem tautar og raular. Jafnvel þótt það þýddi að slíta þurfi þingi til að koma í veg fyrir synjun þingheims. 37 prósent sögðust andvíg en nítján prósent óviss.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.