Enski boltinn

Segir að Aaron Wan-Bissaka sé betri en Trent Alexander-Arnold

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Wan-Bissaka var frábær í fyrsta leik með Manchester United.
Aaron Wan-Bissaka var frábær í fyrsta leik með Manchester United. Getty/Matthew Peters
Manchester United byrjaði frábærlega í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi og nýju mennirnir í vörninni, Harry Maguire og Aaron Wan-Bissaka, léku báðir sína fyrstu keppnisleiki.

United gekk illa að halda hreinu á síðustu leiktíð en mætir greinilega með allt aðra og betri vörn eftir að hafa keypt miðvörðinn Maguire frá Leicester og bakvörðinn Wan-Bissaka frá Crystal Palace.

Paul Parker þekkir vel til varnarleiks Manchester United enda spilaði hann sem bakvörður hjá félaginu í fimm ár frá 1991 til 1996. Parker tjáði sig sérstaklega um bakvörðinn Aaron Wan-Bissaka í hlaðvarpsþættinum WeAreTheBusbyBoys.

Parker er á því að Wan-Bissaka sé orðinn besti bakvörðurinn í ensku úrvalsdeildinni en United borgaði Crystal Palace 50 milljónir punda fyrir hann.





„Ég hef sagt það mörgum sinnum að ég horfði oft á hann spila á síðustu leiktíð og ég er mjög hrifinn af því sem hann gerir,“ sagði Paul Parker við strákana í WeAreTheBusbyBoys hlaðvarpinu.

„Fólk er að tala um þennan strák hjá Liverpool (Trent Alexander-Arnold) en hann getur ekki varist eins og Wan Bissaka. Varnarleikur og staðsetningar Wan Bissaka eru mjög góðar. Hann vill verjast og hann elskar að verjast. Allar tæklingarnar í leiknum við Chelsea vann hann snyrtilega,“ sagði Paul Parker.





Harry Maguire var valinn maður leiksins en Parker hefði alltaf valið Wan Bissaka. „Það er eins og hann sé búinn að vera þarna í mörg ár. Ég er að meta hann sem varnarmann og sem slíkur þá er hann besti hægri bakvörðurinn í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Parker.

„Það er alltaf sett smá spurningarmerki við það þegar hann fer fram en hann mun læra það. Hann verður betri og betri í sóknarleiknum. Hann er að spila fyrir félag sem mun leyfa honum það,“ sagði Paul Parker.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×