Erlent

Ísraelar snúa við ákvörðun um aðra þingkonuna

Kjartan Kjartansson skrifar
Tlaib er af palestínskum ættum. Hún fær landvistarleyfi til heimsækja níræða ömmu sína.
Tlaib er af palestínskum ættum. Hún fær landvistarleyfi til heimsækja níræða ömmu sína. Vísir/EPA
Rashida Tlaib, önnur bandarísku þingkvennanna tveggja sem ísraelsk stjórnvöld ætluðu að banna að koma til landsins, fær landvistarleyfi af mannúðarástæðum eftir allt saman. Ísraelsk stjórnvöld tilkynntu í gær að þingkonunum tveimur, sem báðar eru múslimar og demókratar, yrði bannað að koma til landsins í kjölfar þrýstings frá Donald Trump Bandaríkjaforseta um að þeim yrði refsað.Tlaib, fulltrúadeildarþingkona frá Michigan, er af palestínskum ættum. Hún og Ilhan Omar, fulltrúadeildarþingkona frá Minnesota, hugðust heimsækja Vesturbakkann á sunnudag. Ísraelar tilkynntu í gær að þær fengju ekki að koma og vísuðu til stuðnings þeirra við sniðgöngu á Ísrael vegna hernámsins á landsvæðum Palestínumanna.Nú hefur innanríkisráðuneyti Ísraels lýst því yfir að Tlaib fái að koma til landsins. Hún fái leyfi af mannúðarástæðum til að hún geti heimsótt ættingja sína í Palestínu. Tlaib segist hafa óskað leyfinu til að geta heimsótt ömmu sína sem er níræð þar sem það gæti verið síðasta tækifæri hennar til að hitta hana, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.Trump forseti hafði sótt það fast að ísraelsk stjórnvöld bönnuðu Tlaib og Omar að koma til landsins. Þær eru báðar í róttækasta armi Demókrataflokksins og hefur Trump beint árásum sínum að þeim undanfarið og reynt að gera þær að andliti flokksins í aðdraganda forsetakosninganna á næsta ári.Omar og Tlaib voru á meðal þeirra fjögurra þeldökku þingkvenna sem sættu rasískum árásum Trump og stuðningsmanna hans á dögunum. Trump tísti um að þingkonurnar ættu að fara aftur til síns heima, þrátt fyrir að þrjár þeirra væru fæddar í Bandaríkjunum. Stuðningsmenn Trump kyrjuðu jafnframt um að hann ætti að reka Omar, sem fæddist í Sómalíu en kom til Bandaríkjanna sem flóttamaður sem barn, úr landi.Ákvörðun Ísraelsstjórnar að banna þingkonunum að koma til landsins og þrýstingur Trump hefur vakið deilur bæði í Bandaríkjunum og Ísrael. Nokkrir þingmenn repúblikana hafa gagnrýnt forsetann fyrir að þrýsta á erlent ríki um að banna bandarískum þingmönnum að koma til landsins. Alexandria Ocasio-Cortez, fulltrúadeildarþingkona demókrata og bandamaður þeirra Omar og Tlaib, sagðist í gær ekki ætla að heimsækja Ísrael svo lengi sem öðrum bandarískum þingmönnum sé meinað um að koma þangað.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.