Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - KR 2-1 │ Selfoss er bikarmeistari árið 2019

Gabríel Sighvatsson skrifar
Bikarinn fer á loft.
Bikarinn fer á loft. vísir/daníel
Selfoss er bikarmeistari 2019 eftir æsispennandi viðureign við KR á Laugardalsvelli í dag.

KR komst yfir snemma leiks með marki frá Gloriu Douglas en hún gerði frábærlega þegar hún lék á tvo leikmenn Selfoss áður en hún lagði boltann í netið, óverjandi skot.

Hólmfríður Magnúsdóttir svaraði fyrir Selfoss á 36. mínútu. Hún fór þá alla leið eftir að hafa hirt boltann af fyrirliða KR, Þórunni Helgu Jónsdóttur sem var of lengi að athafna sig.

Í seinni hálfleik höfðu liðin hægar um sig en þegar lítið var eftir færðist fjör í leikinn og fengu bæði lið færi á að klára einvígið.

Í uppbótartíma varð umdeilt atvik þegar Anna María Friðgeirsdóttir tæklaði Söndru Dögg Bjarnadóttur innan eigin vítateigs og eru skiptar skoðanir á hvort hún hafi farið í boltann eða ekki. Egill Arnar Sigurþórsson, dómari leiksins, sem var með allt á hreinu í dag, dæmdi ekkert.

Eftir venjulegan leiktíma var allt hnífjafnt í stöðunni 1-1 og því þurfti að grípa til framlengingar til að útkljá viðureignina.

Varamaðurinn Þóra Jónsdóttir var hetja Selfyssinga í dag. Hún kom af varamannabekknum undir lok venjulegs leiktíma og tryggði Selfossi sigurinn á 102. mínútunni með skoti rétt fyrir utan teig.

Selfoss var mun betri aðilinn í framlengingunni. KR-ingar höfðu einfaldlega ekki orkuna til að halda í við Selfoss liðið og sitja því eftir með sárt ennið.

Af hverju vann Selfoss?

Selfoss liðið hafði meiri orku þegar upp var staðið og það sást í framlengingunni. Þegar öllu er á botninn hvolft var það þátturinn sem skildi liðin að í dag.

Vissulega áttu KR-ingar líka í basli með að skora úr færunum sem þær fengu en markmaður Selfoss átti stóran þátt í því. Varnarmistök voru örlagavaldurinn í báðum mörkum Selfoss.

Hverjar stóðu upp úr?

Kelsey Wys, markmaður Selfoss, var stórkostleg í kvöld og bjargaði oft á tíðum meistaralega. Fyrirliðinn Anna María Friðgeirsdóttir er með baneitraðan hægri fót og skapaði nánast alltaf hættu við mark andstæðinganna úr föstum leikatriðum. Hólmfríður skapaði mikinn usla í fyrri hálfleik og skoraði fyrra mark leiksins. Hún hafði hægar um sig í seinni hálfleik en var engu að síður hættuleg í sóknarleiknum. Svo má einnig nefna Magdalenu sem var mjög góð þær 90 mínútur sem hún spilaði.

KR-ingar áttu alls ekki slæman dag en leikmennirnir spiluðu mjög vel á köflum. Guðmunda Brynja Óladóttir var dugleg að koma sér í færi en misnotaði þau alltaf. Þetta er hennar 3. bikarúrslitaleikur í röð sem hún þarf að sætta sig við silfrið. Betsy Doon Hassett var eflaust besti leikmaður KR í dag.

Hvað gekk illa?

KR-ingar voru bara búnir á því eftir 90 mínútur og höfðu ekki nægilega orku til að takast á við framlenginguna. Þær fengu þó færi til að klára leikinn á 90 mínútum en tókst ekki að nýta færin sín.

Það voru varnarmistök sem urðu til þess að Selfoss skoraði fyrra markið sitt og má setja spurningarmerki við markmann KR í seinna markinu. Aftasta línan var óstöðug og gerði fleiri mistök sem þeim var þó ekki refsað fyrir.

Hvað gerist næst?

Selfoss er bikarmeistari árið 2019 og er þetta fyrsti bikarmeistaratitill í sögu félagsins. Selfoss mun væntanlega berjast við Þór/KA og Fylki um 3. sætið í deildinni.

KR þarf að fara að huga að næsta leik í deildinni en þeirra barátta er langt frá því að vera búin. Liðið er einungis þremur stigum frá Keflavík í fallsæti og leikur við Breiðablik framundan áður en Keflavík og KR eigast við í það sem gæti orðið úrslitaleikur í fallbaráttunni.

Hólmfríður jafnaði með stórkostlegu marki.vísir/daníel
Hólmfríður: Gæti ekki verið sætara

„Mér gæti ekki liðið betur. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. KR er með frábært lið en þetta var vinnusigur,“ sagði Hólmfríður Magnúsdóttir eftir leikinn í kvöld.

KR komst yfir með marki Gloriu Douglas á 17. mínútu. Þegar níu mínútur voru til hálfleiks jafnaði Hólmfríður metin með frábæru marki eftir mikinn einleik.

„Ég ákvað að keyra á þær ef ég myndi fá svæði. Ég vissi að þær myndu setja tvo leikmenn á mig allan leikinn en þarna fékk ég tækifæri og nýtti það,“ sagði Hólmfríður.

Þetta er ekki fyrsti titilinn sem Hólmfríður vinnur á ferlinum. En hún segir að þessi sé sá sætasti.

„Þetta er besti titilinn. Ég er að koma aftur eftir barnsburð og ætlaði ekkert að spila. Ég byrjaði að æfa fimm dögum fyrir mót og þetta gæti ekki verið sætara, líka þar sem ég er fædd og uppalin á Suðurlandinu,“ sagði Hólmfríður sem hrósaði stuðningsmönnum Selfoss sem fjölmenntu á leikinn.

„Sjáðu áhorfendurna. Þetta er frábært. Þetta bæjarfélag er ekkert eðlilegt. Fólkið styður við alla sem eru að keppa, hvort sem það eru strákar eða stelpur.“

Alfreð (lengst til hægri) er fyrsti þjálfarinn sem vinnur stóra titil með fótboltalið frá Selfossi.vísir/daníel
Alfreð: Formið skilaði sér

„Mér líður yndislega. Þetta var þvílíkt erfiður leikur. En formið skilaði sér,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, eftir leikinn í kvöld.

Hann sagði frammistöðu Selfyssinga í leiknum ekki hafa verið góða. En liðið hafi sýnt seiglu og karakter.

„Við spiluðum ekkert sérstaklega vel. Taugarnar voru þandar til hins ítrasta. En það er ekki spurt að því. Við unnum og ég er ógeðslega ánægður.“

Hvaða þýðingu hefur það fyrir Selfoss að vera búinn að vinna fyrsta stóra titilinn í fótbolta?

„Strákarnir í handboltanum byrjuðu á þessu í vor og núna tókum við þetta. Og þetta er komið til að vera á Selfossi. Selfyssingar eiga að vera stoltir af því sem þeir eru með sem er dugnaður, eljusemi og kraftur. Það skilar svona,“ sagði Alfreð að endingu.

Jóhannes Karl: Lögðum allt í þetta

Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari KR, var hundfúll með tapið í dag.

„Við lögðum allt í þetta og gerðum það sem við gátum en það tókst ekki í dag. Það munaði ekki miklu á liðunum þeir setja tvö og við eitt, það telur.“

KR fékk sín færi í leiknum en tókst ekki að nýta sér þau en það munaði samt litlu á liðunum.

„Við erum ekki að eiga færri sénsa en þær, þær bara nýta sín færi. Þeir eru sterkar varnarlega og ná að loka okkur svolítið af. Við náðum ekki alveg að skipta boltanum gegnum miðjuna eins og við ætluðum okkar að gera. Það er eitthvað sem þær hafa lagt upp með og við náum ekki almennilega að leysa. Við þurfum kannski aðeins að auka hraðann þegar við erum í þessum skiptingum.“

Leikmenn voru orðnir mjög þreyttir undir lok leiksins. KR fékk dauðafæri alveg undir lok framlengingarinnar til að jafna leikinn og knýja fram vítaspyrnukeppni en eins og áður sagði tókst liðinu ekki að nýta færin sín.

„Í svona leik, komið í framlengingu og leikmenn orðnir þreyttir þá munaði litlu sem engu. Við fáum dauðafæri en það þarf að skora úr þeim líka.“

KR er ennþá í fallbaráttu í deildinni og leikmenn þurfa að vera fljótir að jafna sig á tapinu

„Við erum í hörku botnbaráttu í deildinni og þurfum að setja hausinn aftur þangað. Það er Breiðablik á miðvikudag og Keflavík á sunnudag og við þurfum að ná í öll stig sem við getum þar.“

Anna María lyftir Mjólkurbikarnum.vísir/daníel
Anna María: Þetta er svo sætt

Anna María Friðgeirsdóttir, fyrirliði Selfoss, var í skýjunum með sigurinn.

„Þetta er bara geggjað. Ég er búin að bíða eftir þessu lengi og loksins tökum við bikarinn með okkur yfir brúna.“

Þetta er fyrsti bikarmeistaratitill Selfoss og liðið hefur þurft að bíða lengi eftir honum.

„Það er svo sætt ég á engin orð til að lýsa því. Fólkið okkar kemur allt hérna á mörgum rútum frá Selfossi til þess að styðja við bakið á okkur og við urðum að vinna þetta fyrir það.“

„Þetta var vinnusigur. Þetta var ekki fallegasti fótboltinn í dag, mikið rok á vellinum, erfitt að stjórna boltanum. Þetta datt okkar megin í dag, KR liðið var mjög flott í dag, þetta var held ég jafn og skemmtilegur leikur að horfa á.“

Hetja Selfyssinga kom úr óvæntri átt. Þóra Jónsdóttir, fædd árið 1998, kom inn á rétt fyrir framlenginguna og skoraði markið sem tryggði Selfossi titilinn.

„Fyrsta markið hjá Þóru í meistaraflokki og gátum ekki beðið um betri stund til þess að skora þetta mark.“

En hvað þýðir þetta fyrir framhaldið hjá liðinu?

„Það er bara áfram gakk, við ætlum að sækja 3. sætið í deildinni.“

Þóra: Allt er þegar þrennt er

Þóru Jónsdóttur leið „ólýsanlega“ eftir að hafa tryggt liðinu sínu fyrsta bikarmeistaratitilinn í sögu félagsins.

„Þetta var bara geggjað. Frábært að skora loksins og á svona mikilvægu mómenti, það er ekki verra.“

Þóra staðfesti að þetta var fyrsta mark hennar í meistaraflokki áður en Erna Guðjónsdóttir, liðsfélagi hennar, kom aftan að henni með stútfulla mjólkurfernu og hvolfdi henni yfir Þóru í beinn útsendingu! Mikil stemning í liðinu eftir sigurinn og gaman að þessu.

Selfoss sýndi mikla baráttu og segir Þóra að það hafi skapað sigurinn.

„Dugnaðurinn, formið, við erum í frábæru formi. Þó þær spiluðu vel og komu með mikla baráttu inn í leikinn þá voru þær orðnar þreyttar. Við tókum þetta á forminu og mikilli baráttu.“

„Við erum búin að fara tvisvar alla leið í úrslitaleikinn. Allt er þegar þrennt er, við náðum þessu loksins.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira