Erlent

Leikarinn Peter Fonda er látinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Peter Fonda á viðburði í Hamborg í Þýskalandi í fyrra.
Peter Fonda á viðburði í Hamborg í Þýskalandi í fyrra. VÍSIR/GETTY
Bandaríski leikarinn Peter Fonda er látinn 79 ára að aldri eftir baráttu við lungnakrabbamein. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjölskyldu hans.

Fonda er þekktastur fyrir kvikmyndina Easy Rider sem frumsýnd var árið 1969. Fonda skrifaði handrit myndarinnar, framleiddi hana og lék eitt aðahlutverka, ásamt Dennis Hopper og Jack Nicholson. Myndin er talin einn af hápunktum hinnar svokölluðu „andmenningar“ (e. counterculture) sjöunda áratugsins í Bandaríkjunum.

Fonda var tvisvar tilnefndur til Óskarsverðlauna, fyrst fyrir handritið að Easy Rider og síðar fyrir bestan leik í aðalhlutverki árið 1997 fyrir myndina Ulee's Gold. Fonda hlaut Golden Globe-verðlaunin fyrir leik sinn í myndinni.

Fonda var úr mikilli leikarafjölskyldu. Faðir hans var hinn goðsagnakenndi Henry Fonda, systir hans er leikkonan Jane Fonda og dóttir hans er Bridget Fonda. Þá lætur hann eftir sig soninn Justin og eiginkonu, Margaret DeVogelaere.

Hér að neðan má sjá stiklu úr kvikmyndinni Easy Rider.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.