Erlent

Geislamengunar vart eftir mannskætt eldflaugarslys

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjölskylda fylgist með sprengingu í herstöð í Síberíu á mánudag. Annað mannskætt slys varð á vopnatilraunasvæði rússneska hersins í dag.
Fjölskylda fylgist með sprengingu í herstöð í Síberíu á mánudag. Annað mannskætt slys varð á vopnatilraunasvæði rússneska hersins í dag. AP/Dmitrí Dub

Yfirvöld í rússnesku borginni Severodvinsk segja að bakgrunnsgeislun þar hafi aukist eftir að eldflaugarhreyfill sprakk á vopnatilraunasvæði í norðurhluta landsins í dag. Tveir eru sagðir hafa farist í sprengingunni og sex slasast til viðbótar. Loka hefur verið fyrir skipasiglingar á Hvítahafi vegna slyssins.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir að eldflaugarhreyfill með fljótandi eldsneyti hafi sprungið og eldur hafi kviknað á skotsvæði í Nyonoksa í Arkhangelsk-héraði í norðvesturhluta landsins, að sögn AP-fréttastofunnar. Það neitar því að hættuleg efni hafi losnað út í andrúmsloftið í sprengingunni.

Það stangast á við fullyrðingar yfirvalda í Severodvinsk, sem er um þrjátíu kílómetra austur af svæðinu, um að bakgrunnsgeislun hafi tekið skammvinnan kipp um klukkan tólf að staðartíma í dag. Þau segja að geislunin sé aftur komin í eðlilegt horf, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Rússneskir fjölmiðlar greina frá því að sjóherinn noti svæðið þar sem sprengingin varð til að prófa skot- og stýriflaugar. Sprengingin er annað meiriháttar slysið hjá rússneska hernum í þessari viku. Einn lést og þrettán slösuðust þegar sprengingar urðu í vopnabúri í herstöð í Síberíu á mánudag. Rýma þurfti þorp í nágrenninu þar sem þúsundir manna búa vegna slyssins.

Skipaumferð um Dvina-flóa í Hvítahafi hefur verið stöðvuð vegna slyssins. Ekki hafa fengist frekari upplýsingar um hversu stóru svæði sé lokað fyrir siglingum eða hvers vegna.


Tengdar fréttir

Vopnageymsla sprakk í Síberíu

Þúsundir íbúa bæjarins Achinsk í Rússlandi hefur verið gert að yfirgefa heimili sín eftir nokkrar stórar sprengingar í vopnageymslu rússneska hersins sem er í nágrenni bæjarins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.