Erlent

Morðóður maður handtekinn í Kaliforníu

Kjartan Kjartansson skrifar
Maðurinn var loks handtekinn við 7-11-verslun í Santa Ana en ekki áður en hann hafði stungið öryggisvörð þar til bana.
Maðurinn var loks handtekinn við 7-11-verslun í Santa Ana en ekki áður en hann hafði stungið öryggisvörð þar til bana. AP/Alex Gallardo
Lögreglan í Kaliforníu handtók karlmann á fertugsaldri sem gekk berserksgang og stakk fjóra til bana og særði tvo til viðbótar í gær, að því er virðist að handahófi. Árásarmaðurinn og fjögur fórnlömb hans eru sögð af rómönskum ættum.

AP-fréttastofan segir að maðurinn, sem er 33 ára gamall, hafi rænt fjölda fyrirtækja og myrt tvo menn í fjölbýlishúsi þar sem hann býr í borginni Garden Grove. Hann var handtekinn þegar hann kom út úr verslun í nágrannaborginni Santa Ana. Þar hafði hann tekið byssu af öryggisverði sem hann stakk til bana.

Talið er að fórnarlömb mannsins hafi verið valin að handahófi. „Rán, hatur og morð“ eru einu ástæður morðanna svo sé, að sögn Carl Whitney, liðsforingja í lögreglunni í Garden Grove.

„Við vitum að þessi náungi var fullur af hatri og hann skaðaði margt fólk í kvöld,“ sagði Whitney.

Hjó nærri því nefið af manni sem dældi eldsneyti á bíl sinn

Til einhvers konar ágreinings virðist hafa komið á milli árásarmannsins og tveggja manna í fjölbýlishúsinu. Hann stakk þá báða til bana. Hann stakk næst konu, starfsmann tryggingafyrirtækis sem hann rændi, ítrekað. Talið er að konan komist lífs af.

Næst réðst maðurinn á viðskiptavin bensínstöðvar sem var að dæla eldsneyti á bíl sinn. Stakk hann viðskiptavininn í bakið og hjó nærri af honum nefið, að sögn lögreglu. Sú atlaga virðist hafa verið með öllu tilefnislaus þar sem árásarmaðurinn gerði enga tilraun til að ræna manninn.

Loks náðist árásarmaðurinn eftir að hann stakk öryggisvörð í 7-11-verslun í Santa Ana til bana. Hann gafst þá upp og lét frá sér stóran hníf og byssu sem hann hafði skorið úr belti öryggisvarðarins. Kom þá í ljós að hann hafði einnig stungið starfsmann Subway-veitingastaðar í nágrenninu til bana í vopnuðu ráni þar.

Hnífsstungumorðin koma fast á hæla tveggja mannskæðra skotárása í Ohio og Texas um helgina þar sem vopnaðir menn skutu 31 til bana. Sérstaka athygli hefur ódæðið í El Paso í Texas vakið því morðinginn virðist hafa látið til skarar skríða vegna andúðar sinnar á innflytjendum og útlendingum. Fjöldamorðið er rannsakað sem hatursglæpur.

Árásarmanninum og fjórum fórnarlömbum hans er lýst sem af rómönskum ættum. Tvö fórnarlambanna eru hvít.


Tengdar fréttir

Tala látinna í El Paso hækkar

Fjöldi látinna er kominn upp í 21 eftir að eitt fórnarlamba skotárásarinnar lést á sjúkrahúsi í El Paso í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×