Erlent

Tuttugu látnir eftir skotárás í Walmart: Trump segir ekkert geta réttlætt dráp á saklausu fólki

Birgir Olgeirsson skrifar
Fólk var harmi slegið eftir árásina.
Fólk var harmi slegið eftir árásina. Vísir/EPA
Tuttugu féllu og tuttugu og sex særðust í skotárás í stórmarkaðinum Walmart í borginni El Paso í Texas-ríki Bandaríkjanna í gær. Ríkisstjóri Texas, Greg Abbott, segir þessa árás hafa verið þá mannskæðustu í sögu ríkisins.

21 árs karlmaður er í haldi en lögreglan sagði hann vera íbúa Allen-borgar nærri Dallas sem er um þúsund kílómetra austur af El Paso. Fjölmiðlar vestanhafs segja árásarmanninn heita Patrick Crusius.

Skjáskot úr eftirlitsmyndavélum hafa verið sýnd í fjölmiðlum þar sem árásarmaðurinn sést í svörtum stuttermabol, með heyrnarhlífar og árásarriffil.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði á Twitter að þessi árás væri verk heiguls. Hann sagði enga ástæðu eða afsökun geta réttlæt dráp á saklausu fólki.

El Paso er nokkrum kílómetrum frá landamærum Mexíkó en forseti landsins segir þrjá Mexíkóa hafa verið á meðal þeirra sem voru myrtir.

Árásin átti sér stað tæpri viku frá því unglingur skaut þrjá til bana á matarhátíð í Kaliforníu. Skotárásin í Texas er sú áttunda mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna.

Lögreglan og alríkislögreglan, FBI, rannsaka nú hvort að nafnlaus stefnuyfirlýsing þjóðernissinna, sem birt var á netspjalli, hafi verið skrifuð af árásarmanninum. Í stefnuyfirlýsingunni er rætt um árás á spænskt samfélag.

Lögreglustjórinn í El Paso, Greg Allen, sagði tilkynningu um skotárás hafa borist lögreglu rétt fyrir klukkan ellefu að staðartíma í gær. Voru viðbragðsaðilar mættir á vettvang sex mínútum síðar.

Mikil samstaða myndaðist í El Paso eftir árásina.Vísir/AP
Fjöldi var mættur í Walmart-verslunina til að kaupa varning tengdan námi enda skólahald að hefjast á næstunni.

Karlmaðurinn ungi er sá eini sem er í haldi en lögreglan segist ekki hafa þurft að hleypa af skotvopnum sínum vettvangi.

Fjölmiðlar hafa rætt við Kiönnu Long sem var í Walmart ásamt eiginmanni sínum þegar þau heyrðu skothljóð. „Fólk var ofsahrætt og hljóp um öskrandi að það væri árásarmaður í versluninni. Long sagði að hún og eiginmaður hennar hefðu hlaupið inn á lager þar sem þau földu sig ásamt öðrum viðskiptavinum.

Glendon Oakly sagði við CNN að hann hefði verið í íþróttavöruverslun í nálægum verslunarkjarna þegar barn kom hlaupandi inn og sagði tilræðismann vera í Walmart. Oakly sagði engan hafa tekið orðum barnsins alvarlega en nokkrum mínútum síðar heyrði hann skothvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×