Erlent

Árásarmaðurinn í Ohio sagður hafa haldið lista yfir þau sem hann vildi drepa eða nauðga

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Systir árásarmannsins er á meðal þeirra sem lést.
Systir árásarmannsins er á meðal þeirra sem lést. AP/Marshall Gorby
Bekkjarfélagar Connor Betts, árásarmannsins sem sem drap níu manns og særði 27 í skotárás í Dayton í Ohio-ríki Bandaríkjunum um helgina, segja að hann hafi haldið lista yfir þau sem hann vildi drepa eða nauðga á meðan hann var nemandi í Bellbrook High School.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum greina frá þessu en á vef CNN er haft eftir fjórum fyrrverandi samnemendum hans að á meðan þeir voru nemendur í skólanum fyrir nokkrum árum hafi þeim verið tjáð að nöfn þeirra hafi fundist á dauða-og nauðgunarlista sem Betts á að hafa haldið. Segja þau að Betts hafi verið vikið tímabundið úr skólanum vegna listans

Listanum var skipt í tvo dálka og voru aðeins strákar í dauðadálknum, stelpur í nauðgunardálknum. Fréttir af listanum hafa vakið athygli ekki síst fyrir þær sakir að lögregluyfirvöld í Dayton að hafa sagt að ekki hafi fundist neitt í skrám um hann sem hefði átt að koma í veg fyrir að hann gæti nálgast byssuna sem hann notaði í árásinni. Betts var vopnaður hríðskotabyssu er hann hóf skothríð fyrir utan skemmtistað í Dayton.

Í frétt AP segir að lögregla hafi á sínum tíma rannsakað listann og að þriðjungur nemenda skólans hafi um skamma hríð ekki þorað að koma í skólann vegna listans. Í frétt CNN segir að Betts hafi snúið aftur í skólann eftir að hafa verið vikið tímabundið úr skólanum.

Níu létiust í árásinni.AP/John Minchillo
Skólayfirvöld hafa lítið viljað staðfesta annað en það að Betts hafi stundað nám við skólann, verið sé að safna gögnum um hann.

Í samtali við CNN segir ein af þeim sem var á lista hans að Betts hafi gjarnan leikið sér að því að herma eftir skotárásum. Hinn 24 ára Betts var skotinn til bana af lögreglumönnum á innan við mínútu eftir að hann hóf skothríðina. Meðal þeirra sem létust var systir Betts.

Árásin í Ohio var gerð innan við sólarhring eftir mannskæða skotárás í El Paso í Texas þar sem 20 létust og fjölmargir særðust. Skotárásirnar tvær hafa orðið til þess að enn á ný er kallað eftir því að skotvopnalöggjöf í Bandaríkjunum verði hert.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna ávarpaði bandarísku þjóðina fyrr í dag. Þar kenndi hann meðal annars tölvuleikjum, internetinu og stöðu mála í geðheilbrigðismálum um skotárásir í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Systir árásarmannsins í Dayton meðal látinna

Systir árásarmannsins sem varð níu manns að bana í skotárás í borginni Dayton í Ohio-ríki er meðal þeirra sem létust í árásinni. Hún hét Megan Betts og var 22 ára.

Níu látnir eftir aðra skotárásina á 13 tímum

Níu eru látnir og 16 særðust í skotárás í borginni Dayton í Ohio-ríki í nótt. Lögreglan í Dayton segir að auk hinna níu fórnarlamba sé árásarmaðurinn látinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×