Erlent

Kommúnistaflokkurinn fordæmir mótmælin

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Táragasi var beitt á mótmælendur í Hong Kong.
Táragasi var beitt á mótmælendur í Hong Kong. Nordicphotos/AFP
Stjórnvöld í Kína fordæmdu í gær mótmælin gegn stjórn Carrie Lam í sjálfstjórnarhéraðinu Hong Kong. Sögðu þau mótmælendur hafa valdið réttarríkinu miklu tjóni og að aðgerðir þeirra væru litnar alvarlegum augum. Yang Guang, upplýsingafulltrúi frá skrifstofu málefna Hong Kong og Macau, sagði að það þyrfti að vera í algjörum forgangi að koma á reglu í borginni á ný.

„Við köllum eftir því að almenningur í Hong Kong sé meðvitaður um stöðuna,“ sagði Yang sem fordæmdi jafnframt „glæpsamleg illvirki öfgamanna“ í borginni. Við það bætti Xu Luying, einnig upplýsingafulltrúi, að yfirvöld þyrftu að refsa hverjum þeim sem beitir ofbeldi eða brýtur lög á annan hátt.

Mótmælaaldan braust upphaflega út vegna frumvarps stjórnvalda sem myndi heimila framsal til meginlands Kína. Lam var neydd til að draga frumvarpið til baka og þótt hún hafi sagt að það verði ekki lagt fram á ný hafa mótmælin haldið áfram.

Mótmælendur vilja meina að lögregla hafi gengið of hart fram gegn þeim og verið í samstarfi við skipulögð glæpasamtök um að lemja mótmælendur með kylfum. Því neitar lögregla. Þess er krafist að handteknir mótmælendur verði leystir úr haldi og ekki ákærðir sem og að Lam segi af sér og boði til nýrra kosninga.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×