Erlent

Tugir þúsunda streyma um götur Hong Kong þrátt fyrir bann lögreglu

Eiður Þór Árnason skrifar
Hluti mótmælenda streymdi í átt að skrifstofum kínverskra yfirvalda þar í borg og höfuðstöðvum lögreglunnar.
Hluti mótmælenda streymdi í átt að skrifstofum kínverskra yfirvalda þar í borg og höfuðstöðvum lögreglunnar. Vísir/AP
Tugir þúsunda mótmælenda hafa fyllt götur Hong Kong í dag, daginn eftir að lögregla beitti táragasi á mótmælendur.

Þetta er annan daginn í röð sem mótmælendur virða tilmæli lögreglu að vettugi en mótmæli fóru fram í Yuen Long hverfinu í gær. Lögreglan gaf ekki leyfi fyrir þeim mótmælum af ótta við að ofbeldisátök myndu brjótast út og gáfu í dag einungis leyfi fyrir mótmælum í almenningsgarðinum Chater Garden. Varað var við því að mótmæli utan þess svæðis teldust ólögleg.

Mótmælendur hafa hundsað þau tilmæli og fylltu í dag margar helstu göturnar í fjármála- og verslunarhverfum borgarinnar. Mótmælendur klæddust margir svörtu og báru regnhlífar samhliða því að þeir kölluðu slagorð beint gegn lögreglunni.

Þetta er áttunda helgin í röð sem mótmæli fara fram í Hong Kong. Mótmælendur hafa einkum gagnrýnt stjórnvöld og kallað eftir lýðræðisumbótum.

Í gær kom fólk saman til að fordæma árásir grímuklæddra árásarmanna á mótmælendur á lestarstöð í síðustu viku og afskiptaleysi lögreglu. Upphaflega var blásið til mótmæla í byrjun júní vegna framsalsfrumvarps, sem hefði leyft framsal til Kína.

Eftir að stjórnvöld í Hong Kong létu undan þrýstingi og drógu frumvarpið til baka hafa mótmælendur krafist lýðræðisumbóta, rannsóknar á lögregluofbeldi og afsagnar Carrie Lam, æðsta leiðtoga Hong Kong.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×