Erlent

A$AP Rocky neitar sök við réttarhöld í Stokkhólmi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
A$AP Rocky, sem heitir réttu nafni Rakim Mayers, sést hér grænklæddur á skissu teiknara úr dómsal frá því í morgun.
A$AP Rocky, sem heitir réttu nafni Rakim Mayers, sést hér grænklæddur á skissu teiknara úr dómsal frá því í morgun. Vísir/AP
Bandaríski rapparinn A$AP Rocky, sem ákærður er fyrir líkamsárás, neitaði sök við réttarhöld sem hófust í Stokkhólmi í morgun. Rapparinn, ásamt tveimur öðrum mönnum, er sakaður um að hafa ráðist á mann í borginni í lok júní.

Sjá einnig: Handtóku aðdáanda A$AP Rocky í sænska sendiráðinu fyrir mótmæli, eignaspjöll og hótanir

A$AP Rocky, sem heitir réttu nafni Rakim Mayers, hefur verið í haldi lögreglu í Svíþjóð vegna málsins síðan í byrjun júlí. Hin meinta árás náðist á myndband sem hlotið hefur töluverða dreifingu en saksóknarar segja Mayers og samverkamenn hans hafa ráðist „að yfirlögðu ráði“ á fórnarlambið, Mustafa Jafari. Hann fer fram á tæpar 140 þúsund sænskar krónur í skaðabætur, eða um 1,7 milljón íslenskra króna.

Lögmaður Mayers sagði fyrir rétti í morgun að rapparinn viðurkenndi að hafa kastað Jafari í jörðina, stigið á handlegg hans og kýlt hann í öxlina. Það hefði hins vegar verið á grundvelli sjálfsvarnar.

Renee Black, móðir rapparans, mætir hér hvít- og bleikklædd í dómsal í Stokkhólmi í morgun.Vísir/AP
Mayers og móðir hans, Renee Black, voru bæði viðstödd réttarhöldin í Stokkhólmi í morgun. Málið hefur vakið mikla athygli, ekki síst fyrir aðkomu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta að því en hann hefur ítrekað kallað eftir því að Mayers verði látinn laus úr haldi lögreglu í Svíþjóð og fái að fara heim til Bandaríkjanna.

Trump hefur þannig reynt að fá Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar til að leysa rapparann úr haldi og sagðist persónulega geta ábyrgst hann. Löfven gerði í kjölfarið grein fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins í Svíþjóð og algjöru sjálfstæði sænska réttarkerfinsins. Framkvæmdavaldið mætti ekki reyna að hafa áhrif á framvindu mála í réttarkerfinu.

Hægt er að fylgjast með réttarhöldunum í beinni textalýsingu sænska ríkisútvarpsins hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×