Enski boltinn

Man. Utd. hafnaði tilboði Inter í Lukaku

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lukaku er væntanlega á förum frá Manchester United.
Lukaku er væntanlega á förum frá Manchester United. vísir/getty
Manchester United hafnaði 54 milljóna punda tilboði Inter í Romelu Lukaku. BBC greinir frá.

Forráðamönnum United þótti tilboðið nokkuð lágt en félagið keypti Lukaku frá Everton fyrir 75 milljónir punda 2017.

Talið er að félagaskiptin velti á framtíð Mauros Icardi. Antonio Conte, knattspyrnustjóri Inter, vill losna við argentínska framherjann og Juventus hefur áhuga á honum.

Conte vill ólmur fá Lukaku. Hann hefur lýst yfir hrifningu sinni á belgíska framherjanum í fjölmiðlum og segist hafa reynt að fá hann til Chelsea þegar hann var stjóri liðsins.

Lukaku verður ekki með þegar United og Inter mætast í Singapúr í dag. Leikurinn hefst klukkan 11:30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×