Erlent

Varaforsetinn ver aðstæður barna og fjölskyldna á landamærastöðvum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Í bakgrunni þessarar myndar má sjá dýnurnar sem fólk í innflytjendabúðum sefur á.
Í bakgrunni þessarar myndar má sjá dýnurnar sem fólk í innflytjendabúðum sefur á. Twitter

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, birti í gær tíst þar sem hann varði þær aðstæður sem börn og fjölskyldur í landamærastöðvum víðs vegar um Bandaríkin búa við. Segir hann „berskjaldaðar fjölskyldur“ sem dvelji í slíkum búðum fá „alúðlega meðferð“ frá bandarísku þjóðinni. Í einu tísti sem varaforsetinn birti eru tvær myndir þar sem hann virðist eiga einhver samskipti við börn sem dvelja á einni slíkri stöð.Lengi hefur verið deilt um aðstæðurnar sem fólki á landamærstöðvunum er boðið upp á, en fréttir af því að stórum hópum fólks sé haldið í klefum sem hannaðir eru fyrir mun færri hafa farið hátt á síðustu misserum. Eins hafa birst myndir sem sýna að bersýnilega eru aðstæður í mörgum stöðvanna, sem gerðar eru til þess að halda fólki sem reynir að komast ólöglega yfir landamærin inn til Bandaríkjanna, ekki fullnægjandi samkvæmt stöðlum tolla- og landamæraeftirlits Bandaríkjanna, sem sjálft fer með rekstur stöðvanna.Í tístum sínum sakar Pence miðilinn CNN um að segja ekki satt og rétt frá þegar kemur að aðstæðum fólks á stöðvunum og segir hann CNN hundsa algjörlega þá „frábæru meðferð sem börnum og fjölskyldum er veitt“ í búðunum. CNN og æðsti yfirmaður varaforsetans, Donald Trump Bandaríkjaforseti, hafa lengi eldað grátt silfur saman en forsetinn hefur ítrekað sakað CNN um falsfréttaflutning og kallað fréttamiðilinn, ásamt öðrum miðlum „óvin fólksins.“

Á annarri myndinni sem varaforsetinn birti má sjá þunnar dýnur sem liggja á gólfinu, en þar er fólkinu í stöðvunum gert að sofa.

Starfsmenn landamærastöðva þar sem karlmenn eru í haldi hafa sjálfir lýst aðstæðum þar sem skelfilegum. Segja þeir að sumir mannanna þar hafi verið í haldi í allt að 32 daga, en samkvæmt reglum toll- og landamæraeftirlitsins má ekki halda fólki þar lengur en í 72 tíma.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.