Íslenski boltinn

ÍBV ekki fengið á sig jafn mörg mörk síðan 1998

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eyjakonur fengu skell í Kópavoginum í gær.
Eyjakonur fengu skell í Kópavoginum í gær. vísir/daníel þór
Fara þarf aftur til ársins 1998 til að finna leik þar sem ÍBV fékk á sig jafn mörg mörk í efstu deild kvenna og í gær þegar Eyjakonur töpuðu 9-2 fyrir Íslands- og bikarmeisturum Breiðabliks á Kópavogsvellinum.

Eyjakonur fengu síðast á sig níu mörk í leik í efstu deild þegar þær töpuðu 3-9 fyrir KR-ingum á Hásteinsvelli í 13. umferð 1998. Helena Ólafsdóttir og Olga Færseth skoruðu báðar þrennu í leiknum.

ÍBV hefur aðeins einu sinni tapað stærra í efstu deild en í gær. Það var árið 1995, á fyrsta ári liðsins í efstu deild. ÍBV tapaði þá 10-0 fyrir Breiðabliki á Kópavogsvelli í 2. umferð.

Tapið hjá ÍBV í gær var það stærsta síðan liðið tapaði 0-7 fyrir KR á heimavelli í 13. umferð 2002.

Eyjakonur hafa tapað þremur leikjum í röð og sitja í 8. sæti Pepsi Max-deildarinnar með níu stig, tveimur stigum frá fallæsti. ÍBV hefur fengið á sig 21 mark í sumar, einu marki minna en allt síðasta tímabil.

Stærstu töp ÍBV í efstu deild kvenna:

10-0 fyrir Breiðabliki á útivelli 1995

9-2 fyrir Breiðabliki á útivelli 2019

7-0 fyrir Val á útivelli 1995

7-0 fyrir KR á heimavelli 2002

9-3 fyrir KR á heimavelli 1998

7-1 fyrir Val á heimavelli 2005

6-0 fyrir ÍA á heimavelli 1995


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×