Enski boltinn

Meistarar Manchester City komnir í fyrsta úrslitaleikinn á nýju tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Silva var með fyirrliðabandið hjá Manchester City og skoraði glæsilegt mark.
David Silva var með fyirrliðabandið hjá Manchester City og skoraði glæsilegt mark. Getty/Lintao Zhang

Englandsmeistarar Manchester City spila til úrslita um Asíubikar ensku úrvalsdeildarinnar eftir 4-0 sigur á  West Ham United í undanúrslitaleiknum í dag en þetta fjögurra liða hraðmót fer fram í Kína.

Manchester City mætir Wolverhampton Wanderers í úrslitaleiknum en Úlfarnir unnu 4-0 sigur á Newcastle United fyrr í dag. Newcastle og West Ham spila um þriðja sætið.

West Ham komst reyndar í 1-0 í leiknum en liðsmenn Manchester City svöruðu með fjórum mörkum. David Silva, Lukas Nmecha og Raheem Sterling (2 mörk) skoruðu mörk City í leiknum.Mark Noble kom West Ham í 1-0 með marki úr vítaspyrnu á 25. mínútu leiksins. Vítið var dæmt á Angelino fyrir að handleika knöttinn innan teigs.

Það tók Manchester City aðeins átta mínútur að jafna leikinn en David Silva skoraði það mark. Adrian Bernabe fann Silva í teignum og Spánverjinn tók boltann á kassann og afgreiddi hann með frábæru viðstöðulausu skoti í markið.

Lukas Nmecha fiskaði síðan vítaspyrnu þremur mínútum síðar og skoraði af öryggi úr henni sjálfur.

Staðan var 2-1 í hálfeik en þá sendi Pep Guardiola þá Kevin de Bruyne, Raheem Sterling, Bernardo Silva og Leroy Sane inn á völlinn. Engin venjuleg hálfleikskipting þar á ferðinni.

De Bruyne tók við fyrirliðabandinu af David Silva.

Raheem Sterling þurfti ekki langan tíma til að opna markareikning sinn á nýju tímabili en hann skoraði á 59. mínútu eftir að hafa fengið frábæra sendingu inn fyrir frá Leroy Sane.

Raheem Sterling var ekki hættur og bætti við öðru marki sínu á 72. mínútu. Leroy Sane spilaði þá boltanum inn á Kevin de Bruyne sem sendi hann óeigingjarnt áfram á Sterling.

Úrslitaleikur Manchester City og Wolves fer fram í Sjanghæ á laugardaginn. Manchester City liðið spilar síðan leiki í Hong Kong og Japan áður en snýr aftur heim til Manchester.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.