Erlent

Hóta kyrrsetningu á bresku skipi á móti

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Breskir sjóliðar við kyrrsetningu Grace 1.
Breskir sjóliðar við kyrrsetningu Grace 1. Nordicphotos/AFP
Yfirvöld í Íran eru afar ósátt við að breskir sjóliðar hafi kyrrsett íranskt olíuflutningaskip við Gíbraltar fyrr í vikunni. Það gerðu Bretar vegna gruns um að íranska skipið væri að flytja olíu til Sýrlands, í trássi við viðskiptaþving­anir Evrópusambandsins.

Mohsen Rezayee, fyrrverandi yfirmaður írönsku Byltingavarðasveitarinnar og nú meðlimur ráðgjafaráðs æðstaklerksins Ali Khamenei, sagði á Twitter í gær að þótt Íran hafi aldrei átt frumkvæði að átökum frá byltingu hafi ríkið aldrei hikað við að svara fyrir sig. „Ef Bretar skila ekki íranska olíuflutningaskipinu er það skylda Írana að kyrrsetja breskt olíuflutningaskip á móti,“ tísti Rezayee.

Að því er breska ríkisútvarpið greindi frá var flogið með um þrjátíu breska sjóliða til Gíbraltar til þess að kyrrsetja skipið. Yfirvöld á Gíbraltar báðu um aðstoðina við að kyrrsetja skipið, er heitir Grace 1. Íranska ríkisstjórnin álítur kyrrsetninguna ólöglega.

Á meðan samband Írans og Bandaríkjanna hefur versnað stöðugt undanfarin misseri virðist þetta mál til þess fallið að gera slíkt hið sama fyrir sambandið við Breta. Mostafa Kavakebian, sem leiðir vináttunefnd þingmanna bæði Írans og Bretlands, sagði á Twitter að kyrrsetningin væri „í raun sjórán og ólögleg aðgerð gegn Íran“. Breska utanríkisráðuneytið hafnar því alfarið að um sjórán hafi verið að ræða.

Bandaríski þjóðaröryggisráðgjafinn John Bolton var kátur. „Frábærar fréttir: Bretar kyrrsettu olíuflutningaskipið Grace 1, sem var hlaðið íranskri olíu á leið til Sýrlands,“ tísti Bolton.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×