Enski boltinn

Rekinn vegna rifrilda um umboðsmann

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Garry Monk
Garry Monk vísir/getty
Garry Monk var rekinn nokkuð óvænt frá Birmingham City í vikunni. Framkvæmdarstjóri félagsins Xuandong Ren segir ítrekuð rifrildi vegna umboðsmanna hafa orðið til þess að Monk var rekinn.

Undir stjórn Monk náði Birmingham að halda sér í Championshipdeildinni þrátt fyrir að níu stig hafi verið tekin af félaginu vegna brota á fjármálareglum og að félagið hafi verið í félagsskiptabanni megnið af tímanum sem Monk var við stjórnina.

Ren var í ítarlegu viðtali við The Times þar sem hann sagðist hafa átt í ítrekuðum rifrildum við Monk síðustu mánuði sem að lokum hafi orðið til þess að Monk var rekinn. Ástæða allra rifrildanna var sú að Monk vildi að umboðsmaður sinn kæmi við sögu í öllum samningaviðræðum félagsins.

„Við gáfum Garry allt sem hann vildi. Það var bara eitt sem kom þessu af stað. Ég gerði honum ljóst að við vildum ekki að umboðsmaður hans væri viðriðinn hvern einasta samning,“ sagði Ren.

„Ég er ekki 100 prósent viss um að hann hafi verið að reyna að vera rekinn, en ég veit að honum virtist vera nokkuð sama um starf sitt.“

Monk tók við Birmingham í mars á síðasta ári. Hann hefur áður þjálfað Middlesbrough, Leeds og Swansea.

„Það breyttist allt þegar félagsskiptabanninu var aflétt. Garry vildi umboðsmann sinn inni í öllum samningum, sem var ekki eitthvað sem við gátum samþykkt. Við erum engir vitleysingar, við vitum hvernig fótboltinn virkar, en þetta er ekki vinnuhættir sem við vildum vinna undir.“

„Mér kemur vel við umboðsmanninn hans, James Featherstone, en ég vildi hann ekki inni í öllum samningum.“

Heimildarmaður nátengdur Monk sagði ekkert til í þessum ásökunum og benti á að Featherstone hafi áður verið inni í samningaviðræðum hjá Birmingham áður en Monk tók við. Annars vildu talsmenn Monk ekki tjá sig við Times um málið.


Tengdar fréttir

Monk rekinn frá Birmingham

Garry Monk er ekki lengur knattspyrnustjóri Birmingham City sem endaði í 17. sæti ensku B-deildarinnar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×