Enski boltinn

Klopp: Liverpool þarf að halda áfram að eyða

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Klopp lyftir bikarnum með stóru eyrun.
Klopp lyftir bikarnum með stóru eyrun. vísir/getty
Jurgen Klopp segir að Liverpool verði að halda áfram að eyða peningum ef félagið ætlar að vera samkeppnishæft toppliðum í Evrópu.

Liverpool er besta lið álfunnar eftir sigur í Meistaradeild Evrópu í vor. Til þess að ná þeim árangri eyddi félagið 170 milljónum punda á síðasta ári í leikmenn.

Í sumar er Liverpool hins vegar ekki búið að fá inn neinn nýjan leikmann.

„Liverpool er metnaðarfullt félag og ef við höldum ekki áfram að eyða jafn miklum peningum og hin liðin þá yrðum við ekki samkeppnishæfir,“ sagði Klopp við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF.

„Það eru allir að moka út peningum svo við þurfum að gera það líka.“

Þegar Manchester United keypti Paul Pogba árið 2016 fyrir þá metfé sagði Klopp að „hin félögin geta farið og eytt peningum og náð í toppleikmenn. Ég vil gera hlutina öðruvísi.“

Hann útskýrði þessi orð sín við þýska sjónvarpið.

„Þegar ég var í Þýskalandi þá átti Bayern nærri ótakmarkað magn af peningum. Svona 100 milljónir punda. Á markaðinum í dag kaupir þessi peningur einn miðvörð. Ótakmarkaður peningur er ekki einu sinni nóg til þess að kaupa einn leikmann í heiminum í dag,“ sagði Þjóðverjinn.

„Markaðurinn hefur breyst meira en ég bjóst við en ég stend við það sem ég sagði. Kannski týndist eitthvað í þýðingunni en það sem ég átti við var að ef við förum á þann stað að fótboltinn snýst bara um pening þá hætti ég.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×