Enski boltinn

Solskjær bara með 100 milljónir punda á milli handanna

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Solskjær ætti kannski að reima á sig takkaskóna að nýju til að spara peninga
Solskjær ætti kannski að reima á sig takkaskóna að nýju til að spara peninga vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær fær aðeins 100 milljónir punda til þess að eyða í félagsskiptaglugganum í sumar, nema það komi inn peningur við það að selja leikmenn.

ESPN greindi frá þessu í morgun. United er nú þegar búið að missa Ander Herrera og Antonio Valencia frítt frá félaginu.

United er búið að fá til sín kantmanninn Daniel James frá Swansea fyrir um 15 milljónir punda. Miðað við sögur í enskum fjölmiðlum er liðið meðal annars á höttunum eftir Harry Maguire hjá Leicester og Aaron Wan-Bissaka hjá Crystal Palace.

Maguire er sagður metinn á um 80 milljónir punda hjá Leicester og Palace er nú þegar búið að hafna tveimur tilboðum í Wan-Bissaka í kringum 45-50 milljónir punda.

Ef Solskjær er aðeins með 100 milljónir punda á milli handanna er ljóst að hann getur ekki krækt í báða þessa leikmenn nema selja leikmann í staðinn.

Inter Milan er sagt tilbúið til þess að bjóða 75 milljónir punda í Romelu Lukaku og eru sögusagnir um að hann sé nú þegar búinn að komast að samkomulagi við ítalska félagið.

Þá hefur Paul Pogba svo gott sem sagst vilja fara frá United, en United er sagt vilja fá um 200 milljónir punda fyrir franska heimsmeistarann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×