Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KA 3-4 Víkingur | Víkingssigur í sjö marka leik á Akureyri

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Víkingar gerðu góða ferð norður yfir heiðar í dag
Víkingar gerðu góða ferð norður yfir heiðar í dag vísir/daníel þór
KA fékk Víkinga í heimsókn á Akureyrarvöll í 9.umferð Pepsi-Max deildar karla í dag.KA-menn voru nálægt því að skora fyrsta mark leiksins á skrautlegan hátt þegar Þórður Ingason, markvörður Víkinga, var of lengi að athafna sig með boltann í eigin vítateig. Ásgeir Sigurgeirsson pressaði hann af fullum krafti og náði að tækla boltann sem fór í kjölfarið rétt framhjá markinu.Í kjölfarið fóru Víkingar í sókn sem lauk með því að Guðmundur Andri Tryggvason labbaði framhjá Callum Williams og skoraði framhjá Kristijan Jajalo. Gestirnir komnir í forystu eftir 10 mínútna leik.Sú forysta varði stutt því um það bil hálfri mínútu síðar var staðan aftur orðin jöfn. Bjarni Aðalsteinsson gerði þá vel í að finna Elfar Árna Aðalsteinsson inn á vítateig Víkinga. Elfar Árni gerði vel í að klára færið og jafna metin fyrir heimamenn.Í kjölfarið færðist ró yfir leikinn. Víkingar hnikuðu ekki frá sínum leikstíl og reyndu að spila boltanum í fætur út um allan völl með misjöfnum árangri. KA-menn fengu nokkur tækifæri til að refsa með hröðum upphlaupum en tókst ekki að skapa sér alvöru færi.Á 38.mínútu komust gestirnir aftur í forystu þegar Erlingur Agnarsson fékk að taka við boltanum og stilla sér upp í skot rétt fyrir utan vítateig KA-manna. Erlingur lét ekki bjóða sér það tvisvar og lagði boltann snyrtilega í netið. Víkingar með 1-2 forystu í leikhléið.Síðari hálfleikur var aðeins sjö mínútna gamall þegar KA-menn jöfnuðu metin að nýju. Það gerði Norðmaðurinn Alexander Groven sem var skyndilega einn á auðum sjó í vítateig Víkinga eftir frábæra sendingu Callum Williams.Aftur datt leikurinn niður í kjölfarið af markinu og einkenndust næstu mínútur af miðjumoði. Á 64.mínútu kom hins vegar mark úr óvæntri átt þegar Sölvi Geir Ottesen var réttur maður á réttum stað fyrir Víkinga í vítateig KA-manna og kom boltanum í netið, með herkjum þó því boltinn hafði viðkomu í tveimur varnarmönnum KA áður en hann fór yfir línuna.Nokkrum mínútum síðar var svo dæmd vítaspyrna á heimamenn þegar Bjarni var dæmdur brotlegur fyrir að brjóta á Guðmundi Andra að mati Einars Inga Jóhannssonar, dómara. Vægast sagt umdeildur dómur og KA-menn afar ósáttir. Bjarni meiddist við atvikið og þurfti að fara af velli í kjölfarið.Á vítapunktinn steig Ágúst Eðvald Hlynsson og kóronaði góðan leik sinn með því að skora af öryggi af vítapunktinum.Í kjölfarið lögðu KA-menn allt kapp á að bjarga stigi í það minnsta og fóru heimamenn fram með marga menn sem gaf Víkingum færi á góðum skyndisóknarstöðum. Voru lokamínúturnar því afar hressilegar og ekki var það til að róa leikinn þegar KA-menn náðu að minnka muninn á 89.mínútu. Elfar Árni var þá réttur maður á réttum stað og skoraði annað mark sitt í leiknum.KA-menn náðu hins vegar ekki að nýta uppbótartímann til að jafna leikinn og lokatölur því 3-4 fyrir Víkingum.Afhverju vann Víkingur?

Hörkuleikur þar sem bæði lið áttu góða spretti. Víkingar hnikuðu hvergi frá leikskipulagi sínu og áttu varnarmenn KA oft í vandræðum með snarpa spilamennsku Víkinga á vallarhelmingi KA.

Vítaspyrnudómurinn umdeildi gerir nánast út um leikinn fyrir heimamenn og KA-menn voru afar ósáttir með frammistöðu dómarans í dag.Bestu menn vallarins

Miðjumaðurinn ungi Ágúst Eðvald Hlynsson var maður leiksins í dag. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, er þekktur fyrir að vilja spila ákveðinn leikstíl og Ágúst er algjör lykilmaður í því uppleggi. Var duglegur að finna hættusvæðin og kóronaði góðan leik sinn með því að skora örugglega af vítapunktinum.

Guðmundur Andri Tryggvason opnaði leikinn með marki eftir frábært einstaklingsframtak og fiskaði auk þess vítaspyrnuna sem skildi liðin að, að lokum.

Alexander Groven var góður sóknarlega hjá KA og Elfar Árni Aðalsteinsson skilaði tveimur góðum mörkum.

Annars var virkilega gaman að sjá baráttuna fyrir miðju vallar þar sem ungir og bráðefnilegir leikmenn voru í lykilhlutverkum hjá báðum liðum.

Einkunnir allra leikmanna má sjá með því að smella á Liðin efst í fréttinni.Hvað gekk illa?

Það gefur auga leið þegar sjö mörk eru skoruð að liðin voru ekki að verja markið sitt neitt sérstaklega vel. Það var ekki flókinn aðdragandi að flestum mörkum leiksins en í staðinn stórskemmtilegur leikur fyrir hlutlausa áhorfendur.Hvað er næst?

Víkingar eru á leið í leik í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarsins, einmitt eftir að hafa slegið KA út í 16-liða úrslitum. Næsti leikur Víkinga í deildinni er heimaleikur gegn ÍA þann 1.júlí næstkomandi. KA-menn verða í heimsókn hjá Fylkismönnum degi fyrr.

Arnar: Ungir strákar að verða að karlmönnum
Arnar Gunnlaugssonvísir/daníel þór
Ég er hrikalega stoltur af strákunum. Þetta var rosalega flottur leikur. Það eru ekki mörg lið sem koma á þennan völl og sækja eitthvað. Þetta er algjört vígi hjá KA-mönnum. Það var mikið af ungum strákum sem spiluðu í dag og mér finnst þeir vera að stíga stór skref í að verða að karlmönnum,“ sagði Arnar, þjálfari Víkinga í leikslok.

Arnar kveðst stoltur af ungu leikmönnunum í sínu liði og segir þá vera að bæta sig hratt á milli leikja. Nefndi hann í því samhengi Loga Tómasson, Júlíus Magnússon, Atla Hrafn Andrason, Guðmund Andra Tryggvason og Ágúst Eðvald Hlynsson en þeir tveir fyrstnefndu komu ekki við sögu í leiknum í dag. 

„Þessir strákar eru að skapa sér nafn í boltanum með því að spila leikinn á réttan hátt. Þetta er okkar konsept og hin liðin verða að bregðast við því. KA voru sterkir og það er ekkert grín að koma hingað og sækja sigur með þessa frábæru stuðningsmenn KA yfir sér,“ sagði sigurreifur Arnar sem gat skilið pirring KA-manna í leikslok.

„Þetta var mjög skemmtilegur leikur. Þeir vildu fá víti í fyrri hálfleik og svo fáum við víti og ég get skilið það að þeir hafi verið pirraðir; ég hefði örugglega verið það sjálfur,“ sagði Arnar.

Óli Stefán: Ákveðið þroskaferli
Óli Stefán Flóventssonvísir/bára
KA-menn voru afar ósáttir við dómara leiksins og hópuðust að dómarateyminu í leikslok en reiðin var runnin af Óla Stefáni Flóventssyni, þjálfara KA, þegar hann mætti í viðtal.

Ég var nú líklega manna rólegastur. Það er alveg klárt að það var brotið á Geira (Ásgeiri Sig) og Ella (Elfari Árna) sérstaklega því hann dæmir svo svona víti í síðari hálfleik. Ég fæ aldrei svör frá dómaranum. Hann bara dæmir þetta og við breytum því ekki núna.“

„Við fáum á okkur fjögur mörk og það er stóra málið í þessu. Þetta var ólíkt okkur en við þurfum bara að vinna með þetta. Við þurfum að nýta svona tækifæri en við gripum það ekki í dag. Við verðum að halda áfram að reyna og þetta er bara þroskaferli,“ sagði Óli Stefán en getur hann tekið eitthvað jákvætt úr leiknum?

„Sóknarlega vorum við fínir. Við skorum þrjú mörk og sköpum stöður til að skora fleiri. Það var ágætis rennsli í þessu. Þegar við töpuðum boltanum vorum við afskaplega berskjaldaðir og það fór með þetta fyrir okkur,“ sagði Óli Stefán Flóventsson.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.