Erlent

Metanfundur vekur vonir um líf á Mars

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjálfsmynd sem Curiosity-jeppinn tók af sér í hlíðum Sharp-fjalls á Mars árið 2015.
Sjálfsmynd sem Curiosity-jeppinn tók af sér í hlíðum Sharp-fjalls á Mars árið 2015. Vísir/EPA

Könnunarjeppi bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA hefur fundið vísbendingar um að töluvert magn lofttegundarinnar metans losni úr jarðvegi reikistjörnunnar Mars. Uppgötvunin er sögð óvænt en á jörðinni eru það yfirleitt lífverur sem framleiða metan. Frekari rannsóknir eru fyrirhugaðar til að varpa ljósi á uppruna gassins.

Niðurstöður rannsókna Curiosity-könnunarjeppans skiluðu sér til jarðar á fimmtudag og föstudag. NASA hefur enn ekki gefið út opinbera tilkynningu um metanfundinn en New York Times segir að jeppinn hafi greint metan í marsneska loftinu.

Yrði það staðfest að metan finnist á Mars kveikti það vonir um að líf sé hugsanlega að finna þar. Lofthjúpur Mars er næfurþunnur og hefði sólarljós og efnahvörf átt að hafa brotið metan niður á nokkrum öldum. Sé metan að finna þar nú þýddi það að gasið hafi orðið til tiltölulega nýlega.

Þó að Mars sé köld og hrjóstrug eyðimörk í dag telja vísindamenn að vatn hafi verið að finna á yfirborðinu í fyrndinni þegar reikistjarnan var hlýrri. Því hafa kenningar verið á lofti um að hafi örverulíf kviknað þar gæti það hafa lifað af undir yfirborðinu.

Lífverur sem lifa í súrefnissnauðu umhverfi á jörðinni, þar á meðal djúpt í berglögum neðanjarðar, mynda metan. Jarðhitaferlar geta einnig framleitt gastegundina og því er metanfundurinn á Mars ekki afdráttarlaus vísbending um að líf sé þar að finna. Þá er sagt mögulegt að metanið sé ævafornt og bundið djúpt í jarðlögum þaðan sem það gæti sloppið upp um sprungur.

Stjórnendur Curiosity breyttu rannsóknaráætlun farsins snarlega eftir að þeir fengu niðurstöðurnar í hendur til að fylgja þeim eftir. Fyrstu niðurstöður eru sagðar væntanlegar til jarðar í dag.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem vísbendingar um metan á Mars hafa fundist. New York Times segir að mælingar eldri könnunarfara hafi þó verið á mörkum þess að vera marktækar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.