Erlent

Radiohead krafin um hátt lausnargjald

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Thom Yorke og Jonny Greenwod, helstu gerendur í bresku hljómsveitinni Radiohead.
Thom Yorke og Jonny Greenwod, helstu gerendur í bresku hljómsveitinni Radiohead. Vísir/Getty
Breska hljómsveitin Radiohead hefur gert rúmlega 17 tíma af upptökum frá æfingum og tónleikum í kringum OK Computer plötu Radiohead sem kom út árið 1997 aðgengilegt á netinu. Efninu var stolið af hljómsveitinni á dögunum og krafðist þrjóturinn lausnargjalds.

Líkt og Vísir fjallaði um í síðustu viku kennir ýmissa grasa á upptökunum. Þar má finna snemmbúnar útgáfur af velflestum lögunum sem komu út á OK Computer, auk fjölda annarrra laga, þar á meðal gullfallega útgáfu af laginu Lift sem löngu er orðið goðsagnakennt á meðal aðdáenda Radiohead, eins og hefur áður verið fjallað um á Vísi.

Í yfirlýsingu frá hljómsveitinni sem Jonny Greenwood, gítarleikari hljómsveitarinnar, skrifar undir segir að hljómsveitin hafi orðið fyrir tölvuárás og efni sem Thom Yorke, söngvari hljómsveitarinnar, hafi safnað saman verið stolið Krafðist þrjóturinn 150 þúsund dollara í lausnargjald, um 20 milljóna króna, ella myndi hann gefa efnið út.

„Fyrst að þetta er komið út, má þetta alveg eins vera þar“

Eitthvað virðist bragðið hafa mistekið hjá hinum óprúttna tölvuhakkara, í fyrsta lagi lak efnið á netið í síðustu viku án þess að lausnargjaldið hafi verið greitt og í öðru lagi hefur hljómsveitin nú gefið allt efnið út.

„Í stað þess að kvarta, mikið, eða hunsa þetta, höfum við ákveðið að gefa alla 18 tímana út á Bandcamp til stuðnings Extinction Rebellion,“ skrifar Greenwood. Hægt verður að nálgast efnið næstu 18 daga fyrir 18 pund og mun allur ágóði renna til Extinction Rebellion, lofstlagsmótmælahreyfingu í Bretlandi.

„Fyrir 18 pund getur þú nú komist að því hvort við hefðum átt að borga lausnargjaldið,“ skrifar Greenwood og bætir því við að efnið sem um ræðir sé aðeins lítillega áhugavert og hafi aldrei verið ætlað til opinberrar birtingar. 18 pund eru um þrjú þúsund krónur.

„Fyrst að þetta er komið út má þetta alveg eins vera þar,“skrifar Thom Yorke, söngvari sveitarinnar, á Bandcamp síðu hennar, þar sem nálgast má efnið.


Tengdar fréttir

Lagið sem hefði gert Radiohead of vinsæla loks að koma út

Síðar í þessum mánuði verða tuttugu ár frá því að meistaraverk Radiohead, platan OK Computer, var gefin út. Til þess að minnast þess áfanga mun hljómsveitin gefa út viðhafnarútgáfu af plötunni þar sem með fylgja lög sem tekin voru upp á sama tíma og OK Computer en fengu ekki að að fljóta með á plötunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×