Íslenski boltinn

Ágúst: Sagði að Aron myndi klára leikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ágúst var sáttur með sína menn í leikslok.
Ágúst var sáttur með sína menn í leikslok. vísir/bára
„Ég er gríðarlega ánægður. Þetta virkaði hjá okkur. Fyrir leikinn sagði ég að ég myndi setja Aron [Bjarnason] inn á og hann myndi klára leikinn og það gekk eftir,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, eftir sigurinn á Stjörnunni í Garðabænum í kvöld.

„Það er ekki oft sem maður kemur á svona gríðarlega erfiðan útivöll og fær þrjú stig. Við töpuðum þrisvar fyrir þeim í fyrra og vorum staðráðnir í að fá eitthvað út úr þessum leik.“

Áðurnefndur Aron átti frábæra innkomu og breytti gangi mála í leiknum.

„Þeir sem komu inn á voru gríðarlega sterkir. Ég skildi ekki alveg hvernig fótboltaleikur þetta var í fyrri hálfleik. Það var ekkert í gangi og menn í krummafót. En við sýndum klærnar í seinni hálfleik og pressuðum á Stjörnuna sem átti engin svör,“ sagði Ágúst.

Hann sagði að fyrri hálfleikurinn hafi einkennst af mikilli baráttu en Breiðablik hafi stigið á bensíngjöfina í þeim seinni.

„Það var meðbyr með leikmönnunum. Þeir sögðust ætla að klára þetta og ég er gríðarlega ánægður með liðsheildina,“ sagði Ágúst að endingu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×