Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Stjarnan - Breiðablik 1-3 │Aron breytti gangi mála

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Höskuldur Gunnlaugsson með boltann.
Höskuldur Gunnlaugsson með boltann. vísir/vilhelm
Breiðablik tyllti sér á topp Pepsi Max-deildar karla með 1-3 sigri á Stjörnunni í Garðabænum í kvöld.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 49. mínútu komust Stjörnumenn yfir með marki Ævars Inga Jóhannessonar.

Skömmu síðar setti Ágúst Gylfason Aron Bjarnason inn á og hann breytti leiknum.

Með innkomu Arons kom meiri slagkraftur í sóknarleik Blika sem settu Stjörnumenn undir mikla pressu.

Á 65. mínútu jafnaði Aron með skoti utan af kanti sem sveif yfir Harald Björnsson í marki Stjörnunnar.

Guðjón Pétur Lýðsson kom Breiðabliki yfir með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu á 78. mínútu og þegar mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma gulltryggði Alexander Helgi Sigurðarson sigur Blika. Það var vel við hæfi að Aron, besti maður vallarins, gæfi stoðsendinguna.

Stjarnan, sem hefur aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum, er í 7. sæti deildarinnar með tólf stig.

Damir Muminovic og Haraldur Björnsson berjast um boltann.vísir/vilhelm
Af hverju vann Breiðablik?

Eins og áður sagði breytti Aron gangi mála þegar hann kom inn á. Fram að því var sóknarleikur Blika ekki merkilegur en Aron kom inn á með kraft og áræðni og Stjörnumenn réðu ekkert við hann.

Fyrri hálfleikurinn var afar rólegur og vindurinn setti strik í reikning liðanna. Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn vel og komst yfir þegar Ævar Ingi skoraði sitt fyrsta mark í sumar.

Stjörnumenn áttu hins vegar engin svör við Aroni og eftir að Blikar jöfnuðu var allur vindur úr heimamönnum. Þeir gáfu eftir alls staðar á vellinum á meðan gestirnir gáfu í.

Hverjir stóðu upp úr?

Aron skoraði mark og lagði upp annað, var síógnandi og bjó jöfnum höndum til færi fyrir sjálfan sig og samherja sína. Frábær innkoma hjá Aroni sem hefur leikið vel í síðustu leikjum.

Guðjón Pétur var góður í seinni hálfleik og kom Blikum yfir með frábæru marki. Jonathan Hendrickx átti einnig fínan leik á hægri kantinum.

Sölvi Snær Guðbjargarson fékk tækifæri í byrjunarliði Stjörnunnar og var þeirra besti maður í fyrri hálfleik. Hann var líflegur og ógnandi á hægri kantinum þótt skotin hans hafi ekki verið sérstök.

Hvað gekk illa?

Eftir að hafa átt náðugt kvöld framan af lenti Heiðar Ægisson í gríðarlega miklum vandræðum þegar Aron kom inn á. Hann átti litla möguleika gegn honum einn á móti einum og til að bæta gráu ofan á svart fékk hann litla hjálp.

Stjörnumenn misstu tökin á miðjunni í seinni hálfleik og brotalamirnar í vörninni komu í ljós eftir því sem leið á leikinn. Þá leit Haraldur illa út í jöfnunarmarki Breiðabliks þar sem hann lyftist nánast ekki frá jörðu. Ekki í fyrsta sinn sem það gerist í sumar.

Þá heppnuðust skiptingar Rúnars Páls Sigmundssonar illa á meðan skiptingar Ágústs breyttu leiknum.

Hvað gerist næst?

Framundan eru tveir heimaleikir hjá Breiðabliki, gegn ÍBV í deild og Fylki í bikar.

Stjarnan fær Fylki í heimsókn í næsta leik sínum á sunnudaginn kemur.

Margir leikmenn horfa agndofa á boltann.vísir/vilhelm
Aron: Stjarnan átti engin svör

„Ég er gríðarlega ánægður. Þetta virkaði hjá okkur. Fyrir leikinn sagði ég að ég myndi setja Aron [Bjarnason] inn á og hann myndi klára leikinn og það gekk eftir,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks, eftir sigurinn í Garðabænum í kvöld.

„Það er ekki oft sem maður kemur á svona gríðarlega erfiðan útivöll og fær þrjú stig. Við töpuðum þrisvar fyrir þeim í fyrra og vorum staðráðnir í að fá eitthvað út úr þessum leik.“

Áðurnefndur Aron átti frábæra innkomu og breytti gangi mála í leiknum.

„Þeir sem komu inn á voru gríðarlega sterkir. Ég skildi ekki alveg hvernig fótboltaleikur þetta var í fyrri hálfleik. Það var ekkert í gangi og menn í krummafót. En við sýndum klærnar í seinni hálfleik og pressuðum á Stjörnuna sem átti engin svör,“ sagði Ágúst.

Hann sagði að fyrri hálfleikurinn hafi einkennst af mikilli baráttu en Breiðablik hafi stigið á bensíngjöfina í þeim seinni.

„Það var meðbyr með leikmönnunum. Þeir sögðust ætla að klára þetta og ég er gríðarlega ánægður með liðsheildina,“ sagði Ágúst að endingu.

Stjarnan fagnar marki sínu.vísir/vilhelm
Rúnar Páll: Þeir voru miklu betri síðasta hálftímann

„Það er alltaf hundleiðinlegt að tapa leikjum. Síðasti hálftíminn var vonbrigði. Blikar tóku yfir leikinn og kláruðu þetta sannfærandi,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir tapið fyrir Breiðabliki í kvöld.

„Þeir voru miklu betri aðilinn síðasta hálftímann í leiknum og áttu þetta fyllilega skilið.“

Stjörnumenn komust yfir á 49. mínútu en misstu öll tök á leiknum um miðbik seinni hálfleiks.

„Það þarf að greina það hvað gerðist. Mér fannst þeir taka yfir miðjuna. Svo skora þeir tvö draumamörk. En fram að fyrsta markinu vorum við með góð tök á leiknum,“ sagði Rúnar Páll.

„Við vorum með fína stjórn á leiknum þangað til jöfnunarmarkið kom. Þá fór skipulagið í vaskinn. Við ógnuðum lítið eftir markið sem við skoruðum,“ bætti Rúnar Páll við.

Það var hiti í mönnum í kvöld enda mikið undir.vísir/vilhelm
Guðjón: Oft talað um að við förum á taugum á þessum tíma

Guðjón Pétur Lýðsson var að vonum afar sáttur með stigin þrjú sem Blikar fóru með úr Garðabænum í kvöld.

Breiðablik lenti undir í upphafi seinni hálfleiks en tók völdin um miðbik hans, skoraði þrjú mörk og tryggði sér sigurinn.

„Markið sem þeir skoruðu kom gegn gangi leiksins og við vorum miklu betri frá þeim tíma. Þetta var verðskuldaður sigur,“ sagði Guðjón.

„Við vorum þéttir fyrir í fyrri hálfleik og gáfum ekki færi á okkur. Í þeim seinni ætluðum við svo að keyra á þá með vindinn í bakið.“

Þegar tólf mínútur voru til leiksloka kom Guðjón Blikum yfir með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu frá vítateigsboganum.

„Ég hitt hann vel,“ sagði Guðjón kíminn. „Við æfðum skotin í gær og ég vissi að ef við fengjum aukaspyrnu myndi ég skora.“

Guðjón kvaðst afar ánægður með að vera kominn á topp deildarinnar.

„Þetta var frábær leikur af okkar hálfu og gott að komast á toppinn. Það er oft talað um að við förum á taugum á þessum tíma en nú komumst við á toppinn,“ sagði Guðjón að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.