Erlent

Í­huga reglu­breytingar vegna tíðra dauðs­falla á E­verest

Atli Ísleifsson skrifar
Örtröð hefur á köflum myndast ofarlega í fjallinu.
Örtröð hefur á köflum myndast ofarlega í fjallinu. AP
Yfirvöld í Nepal íhuga nú að breyta reglum um hverjir fái heimild til að klífa Everest, hæsta fjall heims. Ellefu manns hafa á síðustu vikum látið lífið í tilraunum sínum til að komast á tindinn.

Nokkrir þeirra sem hafa látið lífið í hlíðum fjallsins hafa gert það þar sem þeir hafa beðið í röð eftir að komast á tindinn. Örtröð hefur á köflum myndast ofarlega í fjallinu.

„Það er kominn tími til að endurskoða gömlu reglurnar,“ segir þingmaðurinn Yagya Raj Sunuwar í samtali við New York Times.

Langflestir sem hafa sótt leyfi til að klífa fjallið hafa til þessa fengið umsóknina samþykkta. Fjöldi tiltölulega óreyndra fjallgöngumanna, sem hafa sótt um leyfi til að komast á tindinn, hefur aukist að undanförnu og hefur það aukið á hættu fyrir alla fjallgöngumenn á staðnum.

Fjölmargir fulltrúar nepalskra yfirvalda hafa lýst því yfir að verið sé að fara yfir stöðuna og að til skoðunar sé að umsækjendur verði að sýna fram á reynslu og læknisvottorð um að vera við góða heilsu áður en umsókn fáist samþykkt.

Fjallgöngumenn þurfa nú að skila inn afriti af vegabréfi, stuttu æviágripi og heilsuvottorði sem kveði á um að þeir séu nægilega heilsuhraustir til að klífa fjallið. Fulltrúar yfirvalda hafa þó staðfest að ekki sé í öllum tilvikum hægt að sannreyna vottorðið.

Erlendir fjallgöngumenn þurfa að greiða jafnvirði um 1,5 milljón króna til að fá leyfi til að klífa Everest.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×