Erlent

Fleiri látist á Everest í ár en allt árið 2018

Sylvía Hall skrifar
Everest er hæsti tindur heims og hafa níu Íslendingar komist á toppinn.
Everest er hæsti tindur heims og hafa níu Íslendingar komist á toppinn. vísir/getty
Alls hafa tíu látist í vikunni á Everest-fjalli eftir að tveir menn, Íri og Breti, létust í gær. Eru dauðsföllin á fjallinu í ár orðin fleiri en allt árið 2018. BBC greinir frá.

Breski maðurinn hafði komist á topp fjallsins í gærmorgun en hneig niður og dó aðeins 150 metrum frá tindi fjallsins samkvæmt upplýsingum frá ferðaskrifstofu mannsins. Leiðsögumenn hans höfðu reynt að koma honum til hjálpar en björgunartilraunir báru ekki árangur. Sjerpi mannsins hafði einnig kvartað undan óþægindum á fjallinu og náðist að bjarga honum í búðir neðar á fjallinu.

Þá lést hinn 56 ára gamli Kevin Hynes einnig á föstudag í tjaldi sínu í norðurhlíð fjallsins eftir að hafa snúið við áður en hann komst að toppi fjallsins. Á meðal annarra látinna í vikunni eru fjórir frá Indlandi, Austurríkismaður, Bandaríkjamaður og Nepali. Þá er írski prófessorinn Séamus Lawless talinn af eftir að hann harpaði 500 metra af syllu í hlíðinni.

Yfirvöld í Nepal hafa verið gagnrýnd fyrir fjölda leyfisveitinga en alls hafa verið gefin út rúmlega 380 leyfi fyrir fjallgöngumenn sem hyggjast ná toppnum og hefur verið kallað eftir því að takmarka fjölda leyfa til þess að tryggja öryggi göngufólks. Hvert leyfi kostar 11 þúsund dollara, sem samsvarar 1.364.440 íslenskra króna á gengi dagsins í dag.

Fjöldi vongóðra fjallgöngumanna hefur því aldrei verið fleiri en myndir af biðröð á tindi Everest-fjalls hafa vakið mikla athygli. Við biðina myndast afar hættuleg skilyrði, þar sem fjallgöngumennirnir standa nær hreyfingarlausir í nístingskulda í tæplega 9000 metra hæð.


Tengdar fréttir

Metfjöldi reynir nú að sigra Everest

Mikill fjöldi fólks hefst nú við í hlíðum Everest-fjalls þar sem það bíður færis að komast á topp þessa hæsta fjalls heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×