Erlent

Ákærður fyrir að draga sér fé ætlað Stormy Daniels

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Avenatti með skjólstæðingi sínum Stephanie Clifford, betur þekktri sem Stormy Daniels
Avenatti með skjólstæðingi sínum Stephanie Clifford, betur þekktri sem Stormy Daniels Vísir/AP
Lögmaðurinn Michael Avenatti, sem braust fram í sviðsljósið sem lögmaður klámsstjörnunnar Stormy Daniels í málaferlum hennar gegn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, hefur verið ákærður fyrir að draga sér fé sem ætlað var Daniels. Hann neitar sök.



Saksóknarar í New York ríki segja að Avenatti hafi dregið sér um 300 þúsund dollara, um um 37 milljónir króna, af fjármunum sem ætlaðir voru Daniels vegna útgáfusamnings sem hún gerði. Er Avenatti sakaður um að hafa falsað skjöl til þess að tryggja sér fjármunina, sem hann síðar nýtti sér til að fjármagna eigin lífstíl, þar á meðal til þess að greiða mánaðarlegar greiðslur af Ferrari-sportbíl.

Í ákærunni segir að Avenatti hafi skilað til baka um helming þeirrar upphæðar sem hann er sakaður um að hafa dregið sér. Í röð tísta á Twitter neitaði Avenatti alfarið sök í málinu.

Avenatti berst á mörgum vígstöðvum þessa dagana en stutt er síðan hann var ákærður fyrir tilraun til fjárkúgunar. Er hann sakaður um að hafa reynt að fá Nike til að greiða sér 20 milljónir dollara, um 2,5 milljarða króna, ella myndi hann birta upplýsingar sem kæmu sér illa fyrir bandaríska risafyrirtækið.

Þá hefur Avenatti einnig verði ákærður í Los Angeles fyrir ýmis brot, þar á meðal skattsvik og fjárdrátt.

Saksóknarar í Kaliforníu segja Avenatti hafa stolið frá lömuðum skjólstæðingi sínum og fjórum öðrum. Í stað þess að greiða fé sem þau höfðu fengið í málaferlum sem hann kom að sagði hann það ekki í boði enn og er hann sagður hafa blekkt þá með að færa fé á milli reikninga til að láta líta út eins og þau væru að fá greitt.


Tengdar fréttir

Ákærður fyrir að hafa reynt að kúga milljarða út úr Nike

Bandaríski lögmaðurinn Micheal Avenatti, sem best þekktur er fyrir að hafa verið lögmaður klámstjörnunnar Stormy Daniels, hefur verið ákærður af saksóknurum í New York fyrir að reyna að kúga yfir 20 milljónir dollara, um 2,5 milljarða króna, út úr íþróttavörurisanum Nike.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×