Erlent

Avenatti sagður hafa stolið milljónum af skjólstæðingum sínum

Samúel Karl Ólason skrifar
Michael Avenatti.
Michael Avenatti. AP/Julio Cortez
Lögmaðurinn Michael Avenatti hefur verið ákærður í 36 liðum. Hann er meðal annars sakaður um að hafa stolið af skjólstæðingum sínum, svikið undan skatti, framið bankasvik og að hafa logið að dómara. Hann var handtekinn í síðasta mánuði og ákærður fyrir að reyna að kúga um 25 milljónir dala af Nike.

Avenatti er best þekktur fyrir að hafa verið lögmaður klámleikkonunnar Stephanie Clifford, eða Stormy Daniels, í málaferlum hennar gegn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna.

Nýju ákærurnar voru lagðar fram í Kaliforníu en Nike málið verður tekið fyrir í New York. Saksóknarar í Kaliforníu segja Avenatti hafa stolið frá lömuðum skjólstæðingi sínum og fjórum öðrum. Í stað þess að greiða fé sem þau höfðu fengið í málaferlum sem hann kom að sagði hann það ekki í boði enn og er hann sagður hafa blekkt þá með að færa fé á milli reikninga til að láta líta út eins og þau væru að fá greitt.

Samkvæmt LA Times notaði Avenatti peningana sem hann stal meðal annars til að kaupa sér einkaþotu og til þess að reyna að koma sér frá gjaldþroti.

Hann sagði á Twitter í dag að hann ætlaði að lýsa yfir sakleysi sínu en samkvæmt AP fréttaveitunni gæti Avenatti verið dæmdur í samtals 335 ára fangelsi, miðað við ákærurnar gegn honum.


Tengdar fréttir

Ákærður fyrir að hafa reynt að kúga milljarða út úr Nike

Bandaríski lögmaðurinn Micheal Avenatti, sem best þekktur er fyrir að hafa verið lögmaður klámstjörnunnar Stormy Daniels, hefur verið ákærður af saksóknurum í New York fyrir að reyna að kúga yfir 20 milljónir dollara, um 2,5 milljarða króna, út úr íþróttavörurisanum Nike.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×