Erlent

Fer frá eftir Downs-ummæli um Gretu Thunberg

Kjartan Kjartansson skrifar
Greta Thunberg er 16 ára gömul. Hún hóf svonefnt loftslagsverkfall til að krefjast aðgerða gegn loftslagsbreytingum fyrir utan sænska þingið. Verkföllin hafa síðan getið af sér hreyfingu ungs fólks víða um heim.
Greta Thunberg er 16 ára gömul. Hún hóf svonefnt loftslagsverkfall til að krefjast aðgerða gegn loftslagsbreytingum fyrir utan sænska þingið. Verkföllin hafa síðan getið af sér hreyfingu ungs fólks víða um heim. Vísir/EPA
Forstjóri íþróttvöruverslunarinnar XXL í Svíþjóð hefur látið af störfum eftir Facebook-færslu sem hann skrifaði um Gretu Thunberg, sænsku unglingsstúlkuna sem hefur hrundið af stað loftslagsverkföllum ungmenna um allan heim. Í færslunni notaði hann Downs-heilkennið á niðrandi hátt um Thunberg.

Per Sigvardsson heldur því sjálfur fram að brotist hafi verið inn á Facebook-síðu hans þegar þar birtist færsla um að Thunberg væri „eins nálægt Downs og maður kemst“ eftir að hún heimsótti Evrópuþingið í apríl.

Í frétt norska ríkisútvarpsins NRK kemur fram að XXL réði utanaðkomandi fyrirtæki til að rannsaka staðhæfingar Sigvardsson um að brotist hafi verið inn á Facebook-síðu hans. Ekki fékkst þó niðurstaða um hvernig færslan hefði verið birt eða hvort einhver hefði í raun brotist inn á reikninginn.

Sigvardsson hafi því sjálfur ákveðið að stíga til hliðar strax til að skapa frið um fyrirtækið, að því er segir í yfirlýsingu frá XXL sem stóð lengi vel með Sigvardsson í málinu.

Thunberg, sem er á einhverfurófi, hefur verð skotspónn ýmissa íhaldssamra hópa eftir að hún varð að andliti loftslagsmótmæla ungs fólks.

Áróðri og háði um sænsku stúlkuna hefur meðal annars verið dreift á íslenskum fjölmiðlum. Þannig birti Útvarp Saga pistil um Thunberg á dögunum þar sem ýjað var að því að hún væri handbendi George Soros, ungverskættaða auðkýfingins sem hefur orðið að grýlu og viðfangsefni samsæriskenninga jaðarhópa af hægri vængnum.

Í nafnlausum dálki í Viðskiptablaðinu var Thunberg uppnefnd „Heilög Greta“ og hún sökuð um að leiða nýja „barnakrossferð“ fyrr í þessum mánuði.


Tengdar fréttir

Greta gerð að heiðurs­doktor

Háskólinn í belgísku borginni Mons hyggst gera sænska loftslagsaðgerðasinnanum Gretu Thunberg að heiðursdoktor.

Gagnrýndi leiðtoga Evrópusambandsins fyrir aðgerðarleysi

Umhverfisaðgerðarsinninn Greta Thunberg gagnrýndi leiðtoga Evrópusambandsins fyrir að hafa haldið þrjár neyðarfundi til að ræða útgöngu Breta úr Evrópusambandinu en engan tileinkaðan þeirri ógn sem steðjar að vegna loftslagsbreytinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×