Erlent

Forseti danska þingsins segir Eurovision alltof mikið hommaball

Kolbeinn Tumi Daðason í Tel Aviv skrifar
Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins.
Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins. Fréttablaðið/Anton Brink
Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins og stofnandi Þjóðarflokksins, segir Eurovision farið að snúast alltof mikið um homma og transfólk.

Ummælin hafa vakið mikla athygli í Danmörku en hún leggur líka til að þjóðirnar syngi í auknum æmli á móðurmáli sínu, dönsku í tilfelli Dana.

Pia tekur bolta danska tónlistarmannsins Ivan Pedersen á lofti sem ollu usla fyrr í vikunni. Sá hafði orð á því að Eurovision væri orðið að alltof mikilli hommahátíð. Sjálfur tók Pedersen þátt í undankeppninni í Danmörku 1982 og hafnaði í neðsta sæti.

„Það eina sem skiptir máli er að koma út úr skápnum eða að hafa farið í vel heppnaða kynleiðréttingu og hafa styrk til að vera maður sjálfur, bara ekki venjulegur,“ sagði Pedersen en orð hans sköpuðu mikla umræðu.





Skoðun hans hefur fengið byr undir báða vængi með tísti þingforsetans sem líkir Eurovision við hommaball.

„Það er eins og Eurovision séð orðið að stóru hommaballi og mér finnst ekki að það eigi að vera þannig,“ segir Pia.

Aðspurð hve stórt hlutfall homma sé í lagi segir Pia það ekki hennar að svara.

„Fólk verður að meta það sjálft. Mér finnst hommar mega nýta hæfileika sína í hvað sem er, hvort sem það er í stjórnmálum, Eurovision eða sem blaðamenn.“

Óhætt er að segja að margir í tónlistarsamfélaginu í Danmörku hafi mótmælt orðum Piu

„Flott Pia?! Bæði að stjórna því hvernig við semjum tónlistina okkar og óska þess að skrúfa niður í fjölbreytileikanum,“ segir Anna Lidell, formaður DJBFA sem er fjölmennasta tónskáldafélag í Danmörku.

„Eurovision er hátíð þar sem á að vera pláss fyrir alla.“

Töluverðar deilur sköpuðust hér á landi sumarið 2018 þegar Pia var heiðursgestur á hundrað ára fullveldisafmæli Íslendinga.

„Hún er einn af frumkvöðlum nýfasískra, nýrasískra hreyfinga úti um alla Evrópu,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, við það tilefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×