Tvö rauð og Meistaradeildarsætið enn í hættu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Son Heung-min fær rauða spjaldið undir lok fyrri hálfleiks
Son Heung-min fær rauða spjaldið undir lok fyrri hálfleiks vísir/getty
Bournemouth vann nauman eins marks sigur á níu mönnum Tottenham í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Nathan Ake skoraði sigurmarkið í uppbótartíma seinni hálfleiks eftir að Bournemouth hafði verið tveimur mönnum fleiri allan seinni hálfleikinn.

Fyrri hálfleikur var mjög fjörugur og átti Tottenham fjölda færa. Hinn nítján ára Mark Travers var að spila sinn fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni og átti hann frábæran leik í marki Bournemouth, varði hvert skotið á fætur öðru.

Undir lok fyrri hálfleiks missti Son Heung-min stjórn á skapi sínu og var sendur snemma í sturtu. Juan Foyth var annar tveggja varamanna sem kom inn fyrir Tottenham í hálfleik en gamanið var stutt hjá honum í dag. Hann fór í ljóta og allt of seina tæklingu á Jack Simpson á 47. mínútu og fékk að líta rauða spjaldið.

Tottenham því tveimur mönnum færri það sem eftir lifði.

Bournemouth var mun meira með boltann en náði lítið að gera við hann og Hugo Lloris svitnaði ekki mikið í marki Tottenham.

Það var ekki fyrr en í uppbótartíma sem Ryan Fraser átti hornspyrnu, Nathan Ake komst í gegnum teiginn og stangaði hana í netið. Lokatölur 1-0 fyrir Bournemouth.

Tapið þýðir að Tottenham á enn í hættu á að missa af Meistaradeildarsæti. Þeir eru þó enn í bestu stöðunni, en Chelsea, Arsenal og Manchester United eiga öll leiki til góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira