Enski boltinn

City eitt besta lið sögunnar ef þeir ná að verja titilinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Foden skoraði sitt fyrsta deildarmark um síðustu helgi
Foden skoraði sitt fyrsta deildarmark um síðustu helgi vísir/getty
Ef Manchester City nær að verja Englandsmeistaratitilinn þá hlýtur liðið að teljast eitt besta lið sögunnar. Þetta segir miðjumaðurinn Phil Foden.

Ekkert lið hefur náð að verja Englandsmeistaratitilinn síðustu tíu árin, Manchester United var síðasta liðið sem náði að verja titilinn en United vann þrjú ár í röð vorin 2007-2009.

Ríkjandi meistarar Manchester City eru með 86 stig þegar liðið á fjóra leiki eftir, tveimur stigum á eftir Liverpool sem á þrjá leiki eftir.

„Ef við getum unnið titilinn þá þarf fólk að byrja að hugsa um okkur sem eitt af bestu liðum sögunnar,“ sagði hinn ungi Foden.

„Hver einn og einasti leikmaður vill berjast fyrir liðið og við erum óstöðvandi með það hugarfar. Síðast vorum við með öruggt forskot á toppnum en þetta er betra núna þegar við erum í alvöru baráttu.“

Manchesterliðin tvö mætast á morgun í stórleik sem setur tóninn fyrir endasprettinn í titilbaráttunni. Ef City vinnur er bílstjórasætið þeirra, jafntefli eða tap og Liverpool er í kjörstöðu.

„Það er erfitt að fara á heimavöll United og spila vel en við vitum að við getum það.“

„Þetta er í okkar höndum, ef við vinnum þá leiki sem við eigum eftir er titillinn okkar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×