Enski boltinn

Boðar breytingar á liðinu fyrir grannaslaginn: „Heimurinn er að horfa“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Solskjær í stuði á blaðamannafundi gærdagsins.
Solskjær í stuði á blaðamannafundi gærdagsins. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, segir að það muni verða breytingar á byrjunarliði United fyrir grannaslaginn gegn City í kvöld.

United og City mætast á Old Trafford í kvöld en Everton skellti United um helgina, 4-0. Mikið hefur verið rætt og ritað um frammistöðu United um helgina og margir gagnrýnt liðið harkalega.

„Auðvitað munu verða afleiðingar. Við munum ekki sjá nákvæmlega sama lið gegn Manchester City. Þetta snýst um viðbrögð leikmannana. Við getum ekki unnið í líkamlega partinum heldur er þetta í höfðinu,“ sagði Solskjær.

„Ég þekki leikmennina og þeir eru góðir og með mikla hæfileika. Everton hljóp yfir okkur og lagði meira á sig. Við verðum að koma með annað hugarfar gegn City.“

Norðmaðurinn segist vita vel hversu gott lið City er með en dýrið er sært og United þurfi að bregðast við eftir afhroð helgarinnar.

„Við vitum hversu hæfuleikaríkt lið þeir eru með en okkar stuðningsmenn verða að vita að við munum gefa algjörlega allt; taktísklega, hugarfarslega, líkamlega og einnig fara vel með boltann.“

„Fyrir mig er þetta besti leikurinn sem við gátum fengið. Það er enginn staður til þess að fela sig. Heimurinn er að horfa. Öll Manchester er að horfa. Öll Liverpool er að horfa!“

„Stolt leikmanna, stolt mitt og stolt félagsins hefur verið sært illa. Þessi leikur er frábær til þess að snúa við hlutunum,“ sagði Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×