Enski boltinn

Guardiola: Bæði lið eiga titilinn skilið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guardiola hress í kvöld.
Guardiola hress í kvöld. vísir/getty
Það var glaður en einbeittur Pep Guardiola, stjóri Manchester City, sem mætti í viðtöl eftir 2-0 sigur gegn Manchester United í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var rólegur og City skapaði sér ekki mikið en í síðari hálfleik færðist fjör í leikinn. Hvað sagði Guardiola í hálfleik?

„Ég skil pressuna á okkur og sér í lagi  hérna á Old Trafford þegar þú ert með Marcus Rashford og Jesse Lingard að hlaupa bakvið vörnina. Ég sagði þeim að við þyrftum að spila til þess að vinna og það skipti ekki máli ef við fengum mark á okkur.“

„Nú förum við til Burnley og við vitum að það verður erfitt. Það er mikilvægt að halda rónni. Við erum ekki meistarar. Það eru þrír leikir eftir og þetta er ótrúlegur stigafjöldi sem við Liverpool erum með.“

Guardiola segir að hann hafi biðlað til leikmanna sinna að hlusta ekki á fjölmiðla eftir sigurinn því margir tala um að City sé nú komið með níu fingur á titilinn.

„Ég sagði við leikmennina að lesa ekki neitt á morgun og ekki horfa á sjónvarpið. Bara hvíla sig og sofa vel og svo förum við til Burnley.“

„Við vissum að án Lukaku myndu þeir reyna fara meira á bakvið okkur. Tækifærin sem þau fengu var þegar við misstum boltann á miðjunni og við breyttum hlutunum í síðari hálfleik.“

„Ilkay Gundogan var þá á miðjunni og með Leroy Sane fengum við meiri dínamík,“ en hvernig sér hann fyrir sér síðustu vikur deildarinnar?

„Bæði lið eiga skilið titilinn en það getur bara verið eitt lið. Liðið sem tapar getur ekki séð eftir neinu því það hefur gefið allt. Eftir svona sigur geturu yfirleitt notið hans en við verðum að halda rónni,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×