Enski boltinn

Gerði Chelsea að meisturum en gæti nú verið á leið aftur til Ítalíu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Glaðbeittur Conte.
Glaðbeittur Conte. vísir/getty
Antonio Conte gæti verið á leið aftur á kunnuglegar slóðir en hann er orðaður við stjórastarfið hjá Roma á Ítalíu.

Claudio Ranieri er nú í stjórastólnum hjá Roma en hann er með samning við Roma út leiktíðina eftir að hafa tekið við af Eusebio Di Francesco í mars.

Ranieri hefur einungis unnið þrjá leiki af sjö síðan að hann tók við og nú greinir Sky á Ítalíu frá því að Conte sé líklegastur til að taka við skútunni.

Conte hefur ekki þjálfað síðan hann var rekinn frá Chelsea síðasta sumar og við starfinu tók Maurizio Sarri en Sarri ku einnig vera á óskalista Roma.

Conte og Chelsea hafa barist um greiðslur frá því að hann yfirgaf félagið en það aftrar þó ekki honum að taka við neinu liði.

Hann er sagður gjarnan vilja snúa aftur í fótboltann en þessi 49 ára gamli stjóri er sagður hafa fundað með Juventus í síðustu viku sem mögulegur arftaki Massimiliano Allegri.

Conte stýrði Juventus frá 2011 til 2014 áður en hann tók við ítalska landsliðinu í tvö ár. Þaðan snéri hann til Englands þar sem hann enska meistaratitilinn á fyrsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×