Íslenski boltinn

Rúnar: "Beitir er besti markmaðurinn á Íslandi í dag“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Beitir Ólafsson varði mark KR síðasta sumar og verður þar áfram
Beitir Ólafsson varði mark KR síðasta sumar og verður þar áfram vísir/bára

Beitir Ólafsson er besti markmaður Íslands í dag að mati þjálfara hans Rúnars Kristinssonar. Þetta sagði Rúnar í upphitunarþætti Pepsi Max Markanna á Stöð 2 Sport í gærkvöld.

Pepsi Max deildinn hefst í kvöld með leik Vals og Víkings á Origovellinum. Eins og síðustu ár voru Pepsi Max Mörkin með sinn upphitunarþátt þar sem opinberuð var spá og rætt við þjálfara.

Allir tólf þjálfarar deildarinnar mættu í beina útsendingu í setti Stöðvar 2 Sport, þeirra á meðal Rúnar Kristinsson.

Markvarsla KR-inga skoraði ekki hátt í einkunnagjöfinni sem var grunnurinn að spá Pepsi Max Markanna. Rúnar var þó ekki sammála því.

„Beitir er búinn að bæta sig alveg gríðarlega frá því í fyrra,“ sagði Rúnar.

„Ég held að Beitir sé besti markmaðurinn á Íslandi í dag,“ hélt Rúnar áfram, en þetta eru ansi stór orð í ljósi þess að landsliðsmarkvörður Íslands, Hannes Þór Halldórsson, er kominn í deildina.

„Hann er búinn að vera frábær fyrir okkur í vetur og hentar okkar leikstíl gríðarlega vel. Ég hefði ekki kosið að hafa neinn annan í marki KR í sumar en hann.“

Hvort Beitir nái að standa undir orðum þjálfarans kemur í ljós í sumar en KR hefur leik í Pepsi Max deildinni á morgun í stórleik umferðarinnar þegar þeir svarthvítu sækja Stjörnuna heim á teppið í Garðabæ.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.