Erlent

Nágrannar Notre Dame varaðir við blýi í kjölfar brunans

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Notre Dame dómkirkjan eftir brunann. Þak kirkjunnar fór afar illa í brunanum og hin einstaka kirkjuspíra varð brunanum að bráð.
Notre Dame dómkirkjan eftir brunann. Þak kirkjunnar fór afar illa í brunanum og hin einstaka kirkjuspíra varð brunanum að bráð. Chesnot/Getty
Íbúum í nágrenni Notre Dame dómkirkjunnar í París, sem brann að hluta til fyrir tveimur vikum, hefur verið ráðlagt að þrífa þau yfirborð innan heimila sinna þar sem ryk gæti hafa sest. Ástæðan er að blýblandað ryk úr eldsvoðanum gæti hafa ratað inn í híbýli þeirra.

Samkvæmt lögreglunni í París hafa prófanir sýnt að blýagnir losnuðu út í andrúmsloftið í eldsvoðanum og segir hún líklegt að blý hafi sest inn í hús sem hafi verið opin á einhvern hátt meðan á eldsvoðanum stóð. Rannsakendur segja blýið þó vera afar staðbundið.

Lögreglan merkir þó að ekki er talin mikil hætta á ferðum þar sem það tekur almennt langan tíma að mynda með sér blýeitrun, sé fólk óvarið fyrir þungmálminum. Ekki hefur verið tilkynnt um nein tilfelli bráðrar blýeitrunar síðan dómkirkjan brann.

„Þegar kemur að heimilum eða öðru einkahúsnæði er mælst til þess að íbúar í næsta nágrenni Notre Dame þrífi húsnæði sitt, húsgögn og aðra hluti með blautklútum, og fjarlægi þannig allt ryk, segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Almenningssvæðum í grennd við kirkjuna hefur verið lokað og koma þau ekki til með að opna aftur fyrr en tryggt er að magn blýs á svæðunum sé komið niður í eðlilegt horf.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×