Erlent

Lífstíðarfangelsi fyrir að misþyrma börnum sínum um árabil

Samúel Karl Ólason skrifar
Louise Anna Turpin er hér lengst til vinstri og David Allen Turpin er til hægri.
Louise Anna Turpin er hér lengst til vinstri og David Allen Turpin er til hægri. AP/Will Lester
David Allen Turpin og Louise Anna Turpin hafa verið dæmd lífstíðarfangelsi fyrir að misþyrma tólf af þrettán börnum sínum. Þau munu mögulega geta fengið reynslulausn í fyrsta lagi eftir 25 ár. Börnin fengu lítið sem ekkert að borða, voru barin reglulega og misþyrmt um árabil, eða þar til ein dóttir þeirra flúði með því að stökkva út um glugga og kalla eftir hjálp í janúar í fyrra.Þegar lögregluþjóna bar að garði fundu þeir 22 ára son þeirra hlekkjaðan við rúm og tvær stúlkur sem hafði nýverið sleppt úr hlekkjum. Sjö af börnum hjónanna voru í raun fullorðin og á aldrinum 18 til 29 ára gömul. Yngsta barnið var tveggja ára.Öll börnin þjáðust af næringarskorti og til marks um það töldu lögregluþjónarnir að stúlkan sem flúði hefði verið um tíu ára gömul. Í rauninni var hún sautján ára.Hús þeirra hjóna mun hafa verið viðbjóðslegt þegar lögregluþjónar fóru þar inn og var mikil lykt af hlandi og skít.Sjá einnig: Borðuðu einu sinni á dag og fóru tvisvar á ári í sturtuDavid Allen er 57 ára gamall og Louise Anna er 49 ára gömul. Dómsuppkvaðning fór fram í Kaliforníu í dag en þau lýstu yfir sekt í febrúar.

Lýstu aðstæðum

Nokkur börn þeirra voru viðstödd dómsuppkvaðninguna í dag en ekkert þeirra hefur verið nafngreint og fyrirskipaði dómari að ekki mætti taka myndir af þeim.Ein dóttir þeirra sagðist vera að taka stjórn á eigin lífi. Henni gengi vel að búa ein og væri í skóla.„Ég er baráttukona. Ég er sterk og ég skýst í gegnum lífið eins og eldflaug,“ sagði hún. Hún sagði líf hennar hafa verið slæmt hingað til en það hefði gert hana sterka. „Ég barðist til að verða sú manneskja sem ég er.“Sonur þeirra sagðist ekki geta lýst því sem hann hafi þurft að ganga í gegnum. Hann fengi enn martraðir um að systkini hans væru hlekkjuð og barin. Það tilheyrði þó fortíðinni.„Ég elska foreldra mína og hef fyrirgefið þeim fyrir margt af því sem þau gerðu okkur. Ég hef lært svo mikið og orðið mjög sjálfstæður.“Hann gengur einnig í skóla og er að læra forritun. Hér að neðan má sjá upptöku úr dómsal í dag þar sem dómsuppkvaðning fór fram. Í byrjun má heyra hluta yfirlýsingar þeirra sem nefnd eru hér að ofan. Sonur þeirra las einnig yfirlýsingar frá öðrum börnum. Því næst lesa þau David og Louise upp yfirlýsingar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.