Erlent

Nágrannar höfðu ekki hugmynd um að börn væru í húsinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Louise Anna Turpin er 49 ára og David Allen Turpin er 57 ára.
Louise Anna Turpin er 49 ára og David Allen Turpin er 57 ára. Vísir/AFP
Nágrannar þeirra David Allen og Louise Anna Turpin höfðu ekki hugmynd um að börn hefðu verið á heimili þeirra í Kaliforníu. Sumir höfðu séð þau en engin samskipti haft við börnin. Þau hjón voru handtekin í gær eftir að 17 ára dóttir þeirra flúði af heimilinu og sagði lögregluþjónum að tólf systkini hennar væri haldið föngum. Í ljós kom að einhver þeirra voru hlekkjuð við rúm og læst inni.

Sjö af börnum hjónanna eru í raun fullorðin og á aldrinum 18 til 29 ára gömul. Yngsta barnið er tveggja ára. Öll börn þeirra hjóna þjást af næringarskorti. Til dæmis töldu lögregluþjónarnir stúlkan sem flúði hefði verið um tíu ára gömul.

David Allen er 57 ára gamall og Louise Anna er 49 ára gömul.

„Ég hafði ekki hugmynd um hvað væri í gangi. Ég vissi ekki að það væru börn á heimilinu,“ sagði einn nágranni þeirra hjóna við AP fréttaveituna. Aðrir nágrannar sögðu hjónin hafa verið mikla einfara og þau hafi ekki tala við aðra.

Aðrir segja að hjónin hafi sjaldan yfirgefið heimilið. Einn nágranni þeirra sagði Reuters að hún hefði einungis einu sinni átt í samskiptum við fjölskylduna. Hún hafi gengið fram hjá húsi þeirra í október og þá hafi fjögur börn verið við garðvinnu og Louise Anna hafi fylgst með þeim úr dyragættinni. Enginn svaraði þegar nágranninn heilsaði þeim.



„Þau voru mjög hrædd,“ sagði hún um börnin. „Eins og þau hefðu aldrei séð fólk áður.“

BBC segir nágrannana spyrja sig hvort þau hefðu ekki átt að sjá að eitthvað væri að á heimilinu. Þá virðist sem að enginn viti hve lengi börnunum hafi verið haldið föngum.



Fjölskyldan sótti um gjaldþrot árið 2011, um einu ári eftir að þau fluttu frá Texas til Kaliforníu. Þá vann David Allen Turpin sem verkfræðingur fyrir fyrirtækið Northrop Grumman.

Foreldrar David Allen segjast ekki hafa séð fjölskylduna í fjögur eða fimm ár. Þá segja þau að hjónin hafi verið talin góð kristin fjölskylda í samfélagi þeirra og að guð hafi sagt þeim að eignast svo mörg börn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×