Erlent

Hundar Turpin-fjölskyldunnar voru vel haldnir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Louise Anna Turpin er 49 ára og David Allen Turpin er 57 ára.
Louise Anna Turpin er 49 ára og David Allen Turpin er 57 ára. Vísir/AFP
Tveir hundar á heimili David og Louise Turpin, sem ákærð eru fyrir að hafa haldið 13 börnum sínum föngnum á heimili þeirra í Kaliforníu-ríki í Bandaríkjunum, voru vel haldnir. Börn hjónanna voru hins vegar vannærð, pyntuð og þurftu reglulega að þola barsmíðar.

Málið hefur vakið mikla athygli um allan heim en David og Louise Turpin voru handtekin í liðinni viku eftir að sautján ára gömul dóttir þeirra náði að flýja heimilið og gera lögreglu viðvart um aðstæður sínar og 12 systkina sinna. Lögreglan sagði stúlkuna hafa litið út fyrir að vera tíu ára gamla sökum vannæringar og illrar meðferðar sem hún hafði hlotið á heimili sínu.

Sjá einnig: Foreldrarnir neita sök: Sum barnanna skert á vitsmunum og með taugaskaða eftir ofbeldið

Við húsleit fann lögregla heimilishunda fjölskyldunnar og greinilegt þykir að hugsað hafi verið vel um þá, að því er segir í frétt CNN-fréttastofunnar. Þá eru hundarnir vel tamdir og hefur verið gefið reglulega að borða.

Íbúar Perris-borgar eiga nú kost á að taka hundana að sér.Perris-borg
„Þeir eru í góðu ásigkomulagi, mjög sprækir og vinalegir,“ var haft eftir talsmanni Perris-borgar, Joseph Vargo.

Tíkunum tveimur, sem eru eins árs terríer-blendingar, verður komið fyrir á nýjum heimilum í febrúar. Íbúar í nágrenninu geta nú sótt um að taka hundana að sér og mun úttekt verða gerð á heimilum vænlegra eigenda.

Á fimmtudag las héraðssaksóknari í Riverside-sýslu upp þau atriði sem Turpin-hjónin eru sökuð um. Eru þau sögð hafa refsað börnunum sínum, sem eru á aldrinum 2 til 29 ára, með því að binda þau föst, fyrst með reipi en seinna meir með keðjum sem þau festu með hengilásum.

Þá fengu börnin aðeins að fara í sturtu einu sinni á ári og vöktu á næturnar og sváfu á daginn. Nokkur þeirra eru skert á vitsmunum eftir vistina og hafa hlotið taugaskaða vegna ofbeldis sem þau hafa verið beitt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×