Rauði herinn á toppinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mohamed Salah, leikmaður Liverpool.
Mohamed Salah, leikmaður Liverpool. vísir/getty
Liverpool er komið á toppinn í ensku úrvalsdeildinni eftir 3-1 endurkomusigur á Southampton á útivelli í kvöld. Liðið hefur þó leikið einum leik fleira en Manchester City.

Það voru ekki liðnar nema níu mínútur er Southampton komst yfir. Fyrirgjöf frá Ryan Bertrand endaði hjá Shane Long sem var gapandi frír. Hann gerði engin mistök og skoraði framhjá Alisson.

Það var svo á 36. mínútu er jöfnunarmarkið kom. Trent Alexander-Arnold kom með frábæra fyrirgjöf sem rataði beint á kollinn á Naby Keita. Boltinn fór af kolli Keita og í netið. Hans fyrsta mark fyrir Liverpool.

Það tók Liverpool tíma að brjóta niður varnarmúr Southampton í síðari hálfleik. Það var tíu mínútum fyrir leikslok, eftir frábæra skyndisókn, að Mo Salah skoraði. Hefur verið í lægð en steig heldur betur upp á réttum tíma.







Það var svo fjórum mínútum fyrir leikslok sem þriðja mark Liverpool kom. Langur bolti fram endaði hjá Firmino sem gerði afar vel að koma boltanum fyrir markið þar sem fyrirliðinn Jordan Henderson kom askvaðandi og kom boltanum í netið. Lokatölur 3-1.

Liverpool er tveimur stigum á undan Manchester City á toppi deildarinnar en City á leik til góða. Southampton er hins vegar í sextánda sæti deildarinnar. Þeir eru fimm stigum frá fallsæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira