Burnley kom til baka og vann mikilvægan sigur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Burnley fór langt með að tryggja sæti sitt í deildinni með sigrinum.
Burnley fór langt með að tryggja sæti sitt í deildinni með sigrinum. vísir/getty
Jóhann Berg Guðmundsson kom inn af varamannabekknum í nauðsynlegum sigri Burnley í fallbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni. Leicester valtaði yfir fallið Huddersfield.

Leikurinn á Vitality vellinum í Bournemouth byrjaði hræðilega fyrir gestina í Burnley. Ashley Barnes skoraði sjálfsmark á fyrstu mínútum leiksins eftir aukaspyrnu Ryan Fraser.

Þeir voru hins vegar ekki lengi að koma til baka og Chris Wood jafnaði metin á 18. mínútu leiksins eftir mistök Asmir Begovic í marki Bournemouth.

Tveimur mínútum síðar kom Ashley Westwood Burnley svo yfir og aftur var markið eftir mistök í vörninni hjá heimamönnum.

Joshua King vildi fá vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks en fékki og var staðan 2-1 fyrir Burnley í hálfleik.

Strax í upphafi seinni hálfleiks átti Barnes skalla rétt framhjá marki Bournemouth. Hann vildi fá vítaspyrnu þar sem Nathan Ake virtist hafa handleikið boltann en aftur gaf Martin Atkinson ekki neitt.

Barnes fékk hins vegar mark að lokum, hann skoraði þriðja mark Burnley og bætti upp fyrir sjálfsmarkið á 56. mínútu þegar hann setti sendingu Chris Wood í netið.

Jóhann Berg Guðmundsson byrjaði leikinn á varamannabekknum en hann kom inn á 82. mínútu. Þá var Burnley komið í mjög þægilega stöðu og sigldi mjög mikilvægum sigri heim.

Burnley er nú með 36 stig í 15. sæti, átta stigum meira heldur en Cardiff í 18. sætinu þegar Cardiff á sex leiki eftir.

Huddersfield féll aftur niður í fyrstu deildina á dögunum og Leicester átti ekki í vandræðum með að fara með sigur þegar liðin mættust í Huddersfield í dag.

Jamie Vardy skoraði tvö af mörkum Leicester í 4-1 sigrinum, fjórða sigrinum í röð hjá Leicester. Leicester fer með sigrinum upp í sjöunda sæti deildarinnar, í það minnsta tímabundið.

Crystal Palace þurfti vítaspyrnu til þess að sigra Newcastle. Luka Milivojevic skoraði eina markið og tryggði sigurinn af vítapunktinum eftir að DeAndre Yedlin braut á Wilfried Zaha í vítateignum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira