Erlent

Kostar 8.000 krónur að ganga á Þrælanípuna

Kristján Már Unnarsson skrifar
Horft af Þrælanípu í átt að Leitisvatni, eða Saurvogsvatni. Flugvöllurinn í Vogum er við botn vatnsins.
Horft af Þrælanípu í átt að Leitisvatni, eða Saurvogsvatni. Flugvöllurinn í Vogum er við botn vatnsins. Mynd/Getty.
Landeigendur einnar vinsælustu gönguleiðar Færeyja hafa ákveðið að hefja gjaldtöku af göngufólki í sumar. Athygli vekur hve gjaldið verður hátt, eða 450 danskar krónur, jafnvirði 8.000 króna íslenskra, samkvæmt fréttum færeysku miðlanna Dagur.fo og Kringvarps Føroya.

Gönguleiðin er skammt frá flugvellinum í Vogum og er rúmlega þriggja kílómetra löng. Hún liggur meðfram Leitisvatni, sem einnig nefnist Saurvogsvatn, að Bøsdalafossi og upp á bjargið Þrælanípu. Vatnið stendur í 32 metra hæð yfir sjávarmáli en fossinn fellur úr því fram af kletti og beint niður í sjó. Trælanípan, eins og hún heitir á færeysku, er við hlið fossins og nær 142 metra hæð.

Bøsdalafoss fellur úr vatninu og beint út í sjó.Mynd/Getty.
Í viðtali við einn eigenda jarðarinnar Nípunnar, Jóhannus Nattestad, kemur fram að þolinmæði bænda hafi verið þrotin fyrir löngu. Um þrjátíu þúsund manns hafi gengið leiðina í fyrra, oft 400-500 manns á dag, og landið sé orðið úttraðkað. Mófugli hafi fækkað, sauðfé í hagabeit á Þrælanípu þrífist verr en áður og fallþungi lamba hafi minnkað. 

Landeigendur segja að gjaldið leggist þó eingöngu á útlendinga og ferðamenn í skipulögðum gönguferðum í atvinnuskyni. Færeyingum sem og skólahópum verði áfram heimilt að ganga ókeypis um svæðið. Þeir segjast ætla að nota féð sem innheimtist til að leggja og afmarka göngustíga.

Lögfræðingurinn Jógvan Páll Lassen kvaðst í viðtali í fréttaþættinum Dagur og Vika telja að færeysk lög hindruðu ekki slíka gjaldtöku né að greinarmunur yrði gerður á útlendingum og Færeyingum. Hann hvatti þó til þess að bændur og landeigendur tækju upp viðræður við samtök ferðaþjónustunnar í Færeyjum um málið. 

Umfjöllun Kringvarps Færeyja um gjaldtökuna má sjá hér.


Tengdar fréttir

Ísland ekki rústir einar eftir ferðamenn

Ísland er ekki rústir einar líkt og skilja má á viðbrögðum fólks við frétt þess efnis að Færeyingar ætli að loka eyjunum sínum vegna viðhalds eina helgi í apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×