Innlent

Þetta gerist þegar fjallið þitt verður allt í einu heimsfrægt

Kristján Már Unnarsson skrifar
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðar, með fjallið fræga í bakgrunni.
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðar, með fjallið fræga í bakgrunni. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Frægð Kirkjufells við Grundarfjörð hefur aukist svo á síðustu misserum að bílastæði við rætur fjallsins yfirfyllist á hverjum degi og skapast þar iðulega hættuástand við þjóðveginn. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. 

Í gegnum samfélagsmiðla og sjónvarpsþættina Game of Thrones er það á góðri leið með að verða eitt frægasta fjall Íslands. Þarna er orðinn til einn heitasti ferðamannastaður Snæfellsness, ef ekki landsins, og bílastæði við Kirkjufellsfoss er sprungið. Vetrarríki hindrar ekki ferðamenn að vilja sjá staðinn.

Í þáttunum Game of Thrones er það kallað fjallið sem er eins og örvaroddur. Bílastæðið sést neðst til hægri.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Þetta er svona sjálfsprottinn áfangastaður. Þetta gerist þannig að þetta dásamlega fagra fjall, Kirkjufell, það verður bara frægt. Þetta verður svona „instagram“ undur. Allir verða að koma,“ segir Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðar. 

Og þegar bílastæðið dugar ekki leggja ferðamenn bara í vegkantinum meðfram þjóðveginum. Þarna eru ferðamenn á vappi á veginum á sama tíma og bílar, rútur og trukkar og meðan bæjarstjórinn er í viðtali við Stöð 2 blússar flutningabíll framhjá. Við skynjum að þarna er slysahætta. 

„Hér er bara hættulegt. Það er bara þannig,“ segir Björg.

Kirkjufell séð úr lofti með byggðina í Grundarfirði í baksýn.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Jafnframt hefur átroðningur á landi stóraukist með tilheyrandi skemmdum. En það er ekki einfalt að bæta úr því landið er í einkaeigu. 

„Landeigendur eru alls ekkert í ferðaþjónustu en fá þetta verkefni bara í fangið,“ segir Björg. Þá verði flókið samspil milli landeigenda og þeirra hagsmuna, viðkomandi sveitarfélags og svo ríkisins í gegnum Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. 

En núna stendur til að bæta úr. Framkvæmdir eru að hefjast við nýtt og stærra bílastæði á öðrum stað vestar. Jafnframt verða gerðir stígar og pallar við fossinn.

 

Fjallið og kirkjan í Grundarfirði.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Og hér vantar greinilega fleira en bara bílastæði. Við verðum vitni að því að ferðamaður kastar af sér vatni í vegkantinum. 

-Hvað segir bæjarstjórinn við þessu? 

„Ég segi pass. En er þetta ekki bara það sem við höfum gert í áraraðir, - að míga upp í vindinn, eins og maðurinn sagði.“ 

Fjallað verður nánar um það hvaða áhrif þessi frægð Kirkjufells er að hafa á Grundarfjörð í þættinum „Um land allt“ á Stöð 2 á mánudagskvöld. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Tveir í basli á Kirkjufelli

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa fundið tvo menn sem leituðu hjálpar þegar þeir voru í göngu á Kirkjufelli í Grundarfirði í dag.

Lést við fallið í Kirkjufelli

Erlend ferðakona sem féll um fimmtíu metra í Kirkjufelli á Snæfellsnesi í dag er látin. Ríkisútvarpið (RÚV) greindi frá þessu nú í kvöld.

Segir veiðigjöldin glæpsamlega háan landsbyggðarskatt

Eitt fullkomnasta fiskvinnsluhús á Íslandi hefur verið tekið í notkun í Grundarfirði. Framkvæmdastjórinn efast um að þeir hefðu lagt út í fjárfestinguna hefðu þeir vitað hver veiðigjöldin yrðu.

Banaslys í Kirkjufelli

Björgunarsveitarmenn eru að aðstoða við flutning hins látna af fjallinu og lögreglan á Vesturlandi rannsakar tildrög slyssins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.