Enski boltinn

Gylfi: Verður að vera nógu sterkur til að taka næsta víti

Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið í stóru hlutverki hjá Everton í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Þó svo að stuðningsmenn liðsins séu ekki himinlifandi með gengi þess þetta tímabilið getur Gylfi Þór vel við unað. Hann er í hópi markahæstu leikmanna deildarinnar með tólf mörk og fær að spila flesta leiki í sinni uppáhaldsstöðu.

„Þetta hefur verið allt öðruvísi tímabil en í fyrra,“ sagði Gylfi sem segir þó gott að finna fyrir trausti knattspyrnustjórans Marco Silva.

„Ég hef alveg verið úti á kanti á þessu tímabili en veit að hann hugsar mig fyrst og fremst sem miðjumann. Mér líður mjög vel í kringum þjálfarann og ég fæ mikið traust frá honum. Ég get ekki kvartað yfir neinu.“

Everton komst hæst í sjötta sæti deildarinnar í desember en gaf svo verulega eftir. Gylfi segir að tímabilið hafi verið skrautlegt.

„Þetta hefur verið upp og niður. Það er ekki hægt að lýsa því öðruvísi. Við sýnum þó í stóru leikjunum hversu góðir við erum en það vantar stöðugleika og við megum ekki tapa fyrir liðum eins og Newcastle, sérstaklega þegar við náum 2-0 forystu,“ sagði Gylfi og vísar til leik liðanna fyrir tveimur vikum er Newcastle vann 3-2 sigur eftir að hafa skorað öll sín mörk á síðustu 25 mínútum leiksins.

Klippa: FT Everton 2 - 0 Chelsea
Gylfi er afar örugg vítaskytta og hefur alltaf verið. En í vetur hafa þrjár vítaspyrnur farið í súginn en hann náði þó að fylgja eftir spyrnu sinni gegn Chelsea um síðustu helgi og innsiglaði þá 2-0 sigur Everton. Hann segir að það hafi verið súrsætt að fagna markinu.

„Það var frábært að komast í 2-0 og að skora. En ég var pirraður að hafa klikkað á vítinu,“ sagði Gylfi sem hefur þó ekki áhyggjur af þessum málum.

„Ég spáði meira í þessu þegar fyrstu tvö vítin klikkuðu hjá mér. En leikmenn eins og Messi og Ronaldo hafa klikkað á yfir 20 vítum á ferlinum, ég er þó ekki með tölfræðina alveg á hreinu. En þetta er bara hluti af þessu - maður verður að vera nógu sterkur til að standa upp og taka næsta víti.“


Tengdar fréttir

Sjáðu mark Gylfa gegn Chelsea

Gylfi Þór Sigurðsson átti þátt í báðum mörkum Everton sem vann Chelsea í stærsta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×