Enski boltinn

Pistill í The Times: Gylfi er sá sem heldur leik Everton liðsins gangandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Getty/Robbie Jay Barratt
Gylfi Þór Sigurðsson var á skotskónum í síðasta leik sínum með Everton fyrir mikilvægt landsleikjahlé með íslenska landsliðinu.

Gylfi hefur oft á tíðum mátt þola mikla gagnrýni og litla þolinmæði eftir að Everton keypti hann frá Swansea City fyrir allar þessar milljónir fyrir einu og hálfu ári síðan.

Tom Clarke blaðamaður á The Times skrifar um mikilvægi Gylfa fyrir Everton í vikulegum pistil sínum.

Clarke er á því að Gylfi sé sá leikmaður sem haldi leik Everton liðsins gangandi og þess vegna leiti knattspyrnustjórinn Marco Silva svo oft til hans.





Clarke segir að Marco Silva sé enn að leita að sinni bestu leikmannblöndu og að liðið glími af þeim sökum við mikinn óstöðugleika.

Það sýndi liðið meðal annars í sigurleiknum á Chelsea því leikur Everton var ekki merkilegur í fyrri hálfleiknum en liðið var síðan frábært í þeim síðar.

Marco Silva hefur verið að rúlla mikið á fjórum fremstu mönnum sínum í vetur en það hefur verið hægt að ganga að því vísu að Gylfi Þór Sigurðsson fær að spila í sinni uppáhalds stöðu fyrir aftan framherjann.

Everton er í 11. sæti deildarinnar og sú staða veldur mörgum vonbrigðum og ekki bara stuðningsmönnum félagsins. Það hefur verið miklu til tjaldað til að styrkja liðið á síðustu misserum og liðið átti að vera að banka á Evrópudyrnar en ekki að vera í basli að halda sér í efri hlutanum.

Liðið hefur því ekki verið að spila nógu vel í mörgum leikjanna en það er mat Clarke að í allri umræðunni og gagnrýninni sé Gylfi sá leikmaður sem liðið hefur getað treyst á.





Gylfi átti líka þátt í fyrra marki Everton á móti Chelsea sem Richarlison skoraði eftir hornspyrnu Gylfa.

Gylfi hefur oft átt fleiri stoðsendingar en á þessu tímabili en hann hefur aldrei skorað fleiri deildarmörk. Gylfi er kominn með tólf og fær átta leiki í viðbót til að bæta persónulega met sitt enn frekar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×