Íslenski boltinn

Jón Arnór: Sjálfstraustið var ekkert mikið

Jón Arnór Stefánsson tryggði KR sigurinn í kvöld.
Jón Arnór Stefánsson tryggði KR sigurinn í kvöld. vísir/bára
„Í lokin kom ég inn eftir leikhléið og ég bað aðeins til guðs að hann myndi aðstoða mig við að drulla boltanum ofan í. Mér leið ekkert sérlega vel í skotinu, þurfti aðeins að flýta mér og kannski hafði ég ekki tíma til að hugsa of mikið. Þá datt hann niður,“ sagði Jón Arnór Stefánsson sem tryggði KR sigur á Keflavík í kvöld með þriggja stiga körfu þegar 18 sekúndur voru eftir.

Jón Arnór var aðeins búinn að hitta úr 1 af 8 skotum þar til hann setti niður sigurkörfuna úr horninu.

„Sjálfstraustið var ekkert mikið í þessum skotum þarna á undan. Mér leið eins og ég væri kraftlaus í löppunum, var stuttur en var að fá fín skot sem er gott. Ég veit líka að ég kom inn í þennan leik til að sjá hvernig hlutirnir myndu æxlast, ætlaði ekki vera að þröngva neinu. Við erum með það mörg vopn í liðinu,“ bætti Jón Arnór við.

Keflavík skipti yfir í svæðisvörn í lok annars leikhluta eftir hræðilega byrjun í sókninni og KR-ingar áttu í erfiðleikum með að finna svör við þessari vörn Suðurnesjamanna.

„Við vorum alltof staðir, höfum lent í þessu áður og þurfum að fara að gera betur. Við höfum hitt á leiki gegn svona vörn þar sem ég til dæmis er ekki að setja skotin mín niður. Lykillinn til að brjóta niður svæðisvörn er að ná þessum tveimur til þremur skotum niður í röð. Þá þurfa þeir að skipta í maður á mann vörn sem þeir ráða engan veginn við okkur í.“

„Við vitum þetta og skotin þurfa að detta fyrir okkur. Við munum fara mjög vel yfir þetta og það góða við úrslitakeppnina er að við mætum sama liðinu aftur og náum að undirbúa okkur vel.“

KR byrjaði leikinn af mjög miklum krafti og voru 29-12 yfir eftir fyrsta leikhlutann.

„Við hefðum haldið þessu ef svæðið hefði ekki sett okkur svona út af laginu. Þeir héldu sér inni í leiknum með því að fá mikið af þriggja stiga skotum, við þurfum að vera nær þeim. Það var ekkert að gerast en þeir voru bara að skjóta yfir okkur fyrir utan þriggja stiga línuna,“ bætti Jón Arnór við.

Hann sagði meiðslin ekki hafa truflað hann mikið í kvöld en Jón Arnór meiddist í landsleik og hefur lítið spilað síðan þá. Hann var með kælingu bæði á öxl og hné þegar blaðamaður ræddi við hann.

„Ég var aðeins frá útaf öxlinni og þegar maður er búinn að vera frá bólgnar hnéð aðeins. Þetta er löng úrslitakeppni og við ætlum okkur að halda þessu gangandi. Ég kemst bara í betra og betra stand.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×