Erlent

Reyna að ná meirihluta

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. Nordicphotos/AFP
Breska þingið greiðir í dag atkvæði um tillögur um hvað skuli gera í Brexit-málinu, annað en að samþykkja samninginn sem Ther­esa May forsætisráðherra hafði náð við Evrópusambandið. Þingmenn hrifsuðu til sín völdin yfir Brexit á mánudag eftir að útgöngu var frestað.

Ríkisstjórnin hefur frest til 12. apríl til þess að stinga upp á nýrri nálgun við ESB ef ekki er hægt að ná samningi May í gegnum þingið. Atkvæðagreiðsla um tillögur hefst klukkan 19 í kvöld en það er undir þingforset­anum John Bercow komið um hvaða tillögur verða greidd atkvæði. Samkvæmt BBC er líklegt að gengið verði til atkvæðagreiðslu um til að mynda aðild að EFTA, fríverslunarsamning sem svipar til þess sem ESB og Kanada gerðu og aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit.

Þrír ráðherrar í stjórn May sögðu af sér á mánudaginn vegna þess að þeir voru ósáttir við gang mála. Einn þeirra, Alistair Burt, sagði við BBC að það væri afar brýnt að tryggja að útgangan yrði ekki samningslaus. Fleiri ráðherrar eru sagðir hafa komið því á framfæri við May að þeir myndu segja af sér ef hún beitti sér ekki af hörku gegn samningslausri útgöngu.

The Guardian hafði eftir heimildarmönnum að ósáttir þingmenn Íhaldsflokksins hefðu verið spurðir um það á fundi á sunnudag hvort þeir gætu stutt samninginn ef May segir af sér. Svör liggja ekki fyrir.

Ef þingmenn ná meirihluta um einhverja tillögu í dag þarf ríkisstjórnin annaðhvort að fylgja henni eða hundsa hana. Ef hún er hundsuð, eða ef enginn meirihluti næst, þykir líklegt að atkvæðagreiðsla fari fram í þriðja sinn um samning May. Ef það tekst ekki er staðan enn erfiðari. Þá þyrfti að ganga út án samnings, fresta útgöngu enn frekar eða jafnvel hætta alfarið við Brexit.




Tengdar fréttir

Þingið hrifsaði til sín völdin frá ríkisstjórninni vegna Brexit

Meirihluti þingmanna neðri deildar breska þingsins greiddi í kvöld atkvæði með því að halda atkvæðagreiðslur um næstu skref í Brexit. Þrír ráðherrar í ríkisstjórn Theresu May sögðu starfi sínu lausu til þess að styðja tillögu þess efnis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×