Erlent

Krísufundur hjá May og félögum eftir fréttir um að henni verði steypt af stóli

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Theresa May er forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May er forsætisráðherra Bretlands. AP/Frank Augstein
Theresay May, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, hefur boðað ráðherra bresku ríkisstjórnarinnar og háttsetta þingmenn flokksins til krísufundar á sveitasetri forsætisráðherrans.

Greint var frá því í breskum fjölmiðlum í dag að háttsettir þingmenn innan flokksins hefðu hug á því að steypa May af stóli. BBC greindi frá því fyrr í dag að hinir sömu þingmenn gætu sætt við að samþykkja Brexit-samning forsætisráðherrans í skiptum fyrir fullvissu um að May myndi láta af embætti.

Helstu samstarfsmenn May hafa þvertekið fyrir að hafa ætlað sér að steypa henni af stóli. Með May á fundinum eru David Lidington, sem sagður er vera næstráðandi May og sá stjórnmálamaður sem bresku blöðin nefndu sem mögulegan arftaka May.

Ásamt Lidington eru ráðherrarnir Michael Gove og Stephen Barclay auk harðlínu Brexit-mannanna Boris Johnson, Dominic Raab, Iain Duncan Smith og Jacob Rees-Mogg. Efni fundarins er Brexit og næstu skref tengd útgöngu Bretlands úr ESB.

Fyrirhugað var að Bretland myndi yfirgefa ESB formlega þann 29. mars, næsta föstudag, en ólíklegt þykir að verði af því.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, greindi frá því í síðustu viku að ESB hafi boðið Bretum að fresta útgöngunni frá 29. mars til 22. maí, svo fremi sem breska þingið samþykki útgöngusamninginn í vikunni sem hófst í dag.

Ekki er hins vegar talið víst að May muni boða til atkvæðagreiðslu um samninginn í vikunni enda ekki ljóst hvort samningurinn njóti stuðnings nægjanlegs fjölda þingmanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×